141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

launamál slitastjórna.

[10:59]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég kem ekki hingað til að spyrja, ég ætla að hrósa hæstv. ráðherra sem ég hef kannski ekki alltaf gert. (Gripið fram í: Láttu það eftir þér.) Þetta var mjög skýrt svar og það er augljóst að hæstv. ráðherra ætlar að beita sér í málinu eins og hér var nefnt. Það er til fyrirmyndar, auðvitað svolítið seint, en allt í góðu, sleppum því. (Gripið fram í.) Þetta er til fyrirmyndar. Að vísu getur ríkisvaldið væntanlega fengið líka upplýsingar um laun fleiri slitastjórna en í Landsbankanum. Hæstv. fjármálaráðherra fer væntanlega með kröfur ríkisins og það á líka við um hinar 16 slitastjórnirnar. Seðlabankinn á örugglega kröfur í þær allar.

Virðulegi forseti. Ég efast ekki um að hæstv. forsætisráðherra mun fylgja orðum sínum eftir og gera það í dag. Ég vil bara hrósa hæstv. forsætisráðherra fyrir það og þakka fyrir skýrt og gott svar.