141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[11:29]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í skýrslu Samtaka atvinnulífsins varðandi vörugjöldin kemur fram að eitt af því sem núverandi stjórnvöld ætluðu sér var að fara í endurskoðun á vörugjöldum og virðisaukaskattskerfinu, en við sjáum hins vegar ekki mikil merki um það hér. Ég vil spyrja hv. þingmann, því að ég held að hann hljóti að hafa einhverja reynslu af því: Hvað kemur fyrst og fremst í veg fyrir það?

Þegar menn bera saman vörur, annars vegar á innlendum matvælum sem framleidd eru hér og síðan vörur sem flytja má frjálst á milli landa, t.d. heimilistæki, virðist verðlagið hér vera umtalsvert hærra þó að möguleiki sé á að flytja slíkar vörur frjálst á milli. Telur þá hv. þingmaður að það megi fyrst og fremst rekja til vörugjalda?

Menn hafa líka bent á að smæð markaðarins skiptir verulega miklu máli í því sambandi. Telur hv. þingmaður það vera forgangsmál eftir kosningar, eins og skilja mátti á orðum hans, að taka á þessum vörugjöldum sem skili sér í lægra vöruverði til heimilanna? Mundu breytingarnar skila sér? Reynslan hefur verið sú að þegar gerðar hafa verið breytingar á gjalda- eða skattkerfinu hafa þær ekki endilega skilað sér til heimilanna.