141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

vörugjald og tollalög.

619. mál
[11:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvort ýmislegt ætti meira erindi hingað — út af fyrir sig er hægt að hafa sjónarmið uppi um það en ég held að það fari ósköp vel á því að þegar verið er að innleiða umgjörð sem á að leggja áherslu á innra samræmi sé þeim þáttum sem ekki falla að því samræmi kippt í liðinn með þeim hætti sem verið er að gera í þessu þingmáli. (Gripið fram í.) Það er verið að mæta þeim óskum sem fram hafa komið, ekki síst frá innlendum framleiðendum. Ég held að það sé kannski það mikilvæga fyrir hagsmunina í málinu eins og um það var búið að innlendir framleiðendur töldu að að hluta til hallaði á þá gagnvart innflutningi erlendis frá. Ég held að það sé eðlilegt að þingið leggi áherslu á að laga slíkan halla, sérstaklega í ljósi þess að hann er talinn brjóta gegn ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið innlendum framleiðendum í óhag.