141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[14:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að halda áfram að ræða það sem hv. þingmenn sem voru í andsvörum hér á undan mér voru að ræða, þ.e. að benda á hið augljósa skilningsleysi stjórnmálamanna, þeirra sem setja lög og ákveða skattlagningu, á áhrifum viðkomandi skattlagningar. Hægt er að fara yfir mörg dæmi þess. Hv. þingmenn fóru yfir þann frumskóg sem tollalöggjöfin er sem er nánast ekki nokkur einasta leið að skilja. Við vitum til dæmis að það mál sem er næst á dagskránni, sem snýr að tollnúmerum eða tollflokkum, það eru ákveðin númer á bak við hvern flokk, var unnið í hendingskasti í haust. Ég sagði reyndar þá í ræðum að ég kenndi í brjósti um hv. þingmenn sem sætu í efnahags- og viðskiptanefnd því að verið var að taka málið inn og út og gera breytingartillögur ofan á breytingartillögur o.s.frv. Einhvern veginn lærist þetta nú seint því miður.

Ég man eftir því að á fyrstu þingum sem ég sat, þau eru nú ekki mörg sem ég hef setið, var einmitt verið að breyta sykurskatti. Menn sögðu: Jú, það er lýðheilsumarkmið að skattleggja þessa vöru á þennan hátt. Síðan kom hið gagnstæða í ljóss og í umsögnum frá Lýðheilsustöð og fleiri aðilum sem fjölluðu um þessi mál var bent á hið augljósa, að þetta mundi ekki ná þeim markmiðum sem gert hafði verið ráð fyrir. Við erum því alltaf á þessum slóðum og umhverfið sem verið er að vinna í er alveg með ólíkindum, að við skulum þurfa að taka upp tveimur mánuðum seinna löggjöf sem var unnin á þann veg að flokkar duttu á milli skips og bryggju, eins og stundum er sagt, sem áttu ekki að vera með og aðrir sem áttu að vera með voru það ekki. Þetta er hreint með ólíkindum.

Ég ætla að nefna eitt dæmi sem gerðist, held ég, haustið 2009. Þegar verið var að breyta sykurskattinum — stjórnmálamenn eru mjög flinkir í að finna ástæðurnar og réttlæta gjörðirnar — sat hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem sat í efnahags- og skattanefnd eins og hún hét þá, niðri í þingflokksherbergi og var að fara yfir þessi tollnúmer. Þá komst hann að því að inni í breytingum á tollnúmerum voru nagladekk, þ.e. gúmmí, hjólbarðar hækkuðu við breytingar á skattalöggjöfinni, við sykurskattinn. Þetta er alvarleg áminning til okkar og til framkvæmdarvaldsins og undirstrikar mikilvægi þess að fara í gagngera vinnu til að breyta þessum hlutum og koma þeim þannig fyrir að það geti talist vitrænt.

Förum yfir skattana og hvaða áhrif þeir hafa. Menn rífast um það hvort hærri skattprósenta skili meira eða minna og þar þekkjum við deilurnar á milli fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og vinstri manna. Vinstri menn líta svo á að ef skattprósentuna er hækkuð fáist sjálfkrafa hærri skatttekjur. En það merkilega er að þegar skattprósentan var sem lægst héldu margir vinstri sinnaðir stjórnarandstæðingar því fram, það sér maður þegar maður skoðar gamlar ræður, að þrátt fyrir að skattprósentan væri lækkuð væri í raun um skattahækkun að ræða vegna þess að skatttekjurnar ykjust. Þá lögðu menn það þannig upp og það segir okkur hversu flinkir stjórnmálamennirnir eru við að reyna að snúa stöðunni sér í hag og túlka það hver með sínu nefi.

Í andsvörum áðan — ég ætla að koma aðeins inn á það því ég náði ekki að klára þá umræðu — hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur komu fram þessir hvatar sem eru í löggjöfinni, afleiðingar af löggjöfinni og svokallað eftirlitskerfi allt saman. Það er alveg með ólíkindum og það er í sjálfu sér ekkert að byrja og það er hlutur sem við verðum að taka til gagngerrar endurskoðunar. Verið er að íþyngja fyrirtækjunum með allt of miklu eftirliti. Í mörgum tilfellum er nánast um sama eftirlit að ræða. Það kemur einn og skoðar tvo hluti og svo kemur annar og skoðar tvo hluti og hann skoðar annan af þeim sem hinn skoðaði og svo koll af kolli. Þetta kostar fyrirtækin óhemjupeninga og dregur úr getu þeirra til að gera skynsamlegri hluti og snúa sér að því sem skiptir mestu máli að reyna að auka umsvif fyrirtækisins og skapa frekari störf og hagsæld inn í þjóðarbúið. Það stendur eins og við vitum undir allri velmegun þjóðarinnar, atvinnusköpunin. Þetta er hins vegar ekkert nýtt.

Ég er ekki að tala fyrir því að eftirlitið sé minnkað eða að við slökum á kröfum, það felst ekkert í því. Nærtækasta dæmið er útþensla Fjármálaeftirlitsins. Eftir hrunið fóru menn að auka útgjöldin og ugglaust var þörf fyrir hluta af því og jafnvel allt, ég ætla ekki að fullyrða neitt um það. En það kom klárlega fram í umræðunni, og gerir það svo oft, af því að þetta er skattur sem er markaður tekjustofn — og ég gæti svo sem haldið mjög langa ræðu um markaða tekjustofna en af því að sumir líta svo á, ég er ekki að halda því fram að allir hafi lítinn skilning á því, að af því að skatturinn er lagður á fyrirtækið og fer til þeirra stofnana sem sinna eftirlitinu og hefur ekki í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð þá sé þetta bara allt í lagi, menn hafa ekki svo miklar áhyggjur af því. Hið augljósa er að þegar farið er í þessa vegferð þá dregur það úr getu fyrirtækjanna til að skapa fleiri störf og skapa hagsæld.

Eitt skýrasta dæmið var þegar setja átti fjársýsluskattinn á fjármálastofnanirnar, þá töluðu allir um þessi vondu fjármálafyrirtæki, eða misgóðu eða hvaða orð menn notuðu um það, auðvitað var óhætt að setja fjársýsluskatt á þau. En þegar hið augljósa kom í ljós, þ.e. að þetta yrði til þess að fækka þyrfti starfsfólki, þar sem þetta var launaskattur, gerðu menn ákveðnar breytingar á fyrirkomulaginu. Skattlagning og hvernig skattar eru settir fram hefur áhrif á fyrirtæki og getu þeirra til að standa undir öðrum kostnaði.

Við vitum líka að stjórnmálamenn, sama hvar þeir eru í flokki, reyndar ekki allir stjórnmálamenn en mjög margir, að minnsta kosti af þeim sem ég hef kynnst á þeim tíma sem ég hef verið hér og fylgst með í áranna rás, hafa mikið hugmyndaflug í að réttlæta það hvernig beri að eyða fjármununum. Þeir hafa miklar skoðanir á því hver og einn hvernig skynsamlegast sé að ráðstafa þeim og allt í góðu lagi með það. En oft virðast sömu stjórnmálamenn hafa minni áhyggjur af því hverjir eigi að afla peninganna. Það er einhverra annarra að sjá um að skaffa í ríkissjóðinn þannig að stjórnmálamenn geti eytt peningunum. Það sjáum við í öllum þeim frumvörpum og tillögum sem liggja fyrir þinginu á síðustu klukkutímunum, um útgjaldaaukningu upp á tugi milljarða. Ekki er verið að ræða um 1 eða 2 eða 3 milljarða, það eru komnir tugir milljarða inn á næsta kjörtímabil. Við sjáum því að það er mikilvægt að breyta þessu.

Það má segja um þetta frumvarp að það sé kannski ekkert stórt í sniðum og að ekki sé mikill pólitískur ágreiningur um það hvað beri að gera. En það er hins vegar mjög mikilvægt að fara yfir ástæður þess af hverju bregðast þarf við með þessum hætti. Enn og aftur er verið að gera breytingar sem áttu að vera tímabundnar til að koma til móts við fyrirtæki sem lentu í miklum erfiðleikum eftir hrunið. Þá voru það eðlileg viðbrögð stjórnvalda að létta þeim róðurinn en síðan höldum við alltaf áfram á sömu braut. Nú erum við enn og aftur að endurnýja ákvæði um að dreifa gjalddögum, hvort heldur sem það er á virðisaukaskatti eða tollflokkum og vörugjöldum. Þetta minnir okkur á hversu mikilvægt er að laga umhverfi fyrirtækjanna þannig að þau geti starfað eins og þau hafa gert í áratugi.

Fyrirtækin hafa starfað eftir þessum lögum, sem nú er verið að gera tímabundnar breytingar á, í áratugi, og staðið skil á sínum gjöldum, hvort sem það eru tollgjöld, vörugjöld eða virðisaukaskattur. Þau hafa staðið skil í áratugi en aðstæður eru erfiðar núna og það er umhugsunarefni fyrir okkur hér inni að það skuli ekki hafa breyst á þessum fjórum árum. Það er margt sem spilar þar inn í, bæði hefur gengið illa að greiða úr málefnum sumra fyrirtækja, lagðar hafa verið mjög þungar skattalegar álögur á önnur þannig að þetta hjálpast allt að. Þess vegna er svo mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því og tökum inn í þessa umræðu það umhverfi sem við erum að vinna með.

Mikilvægast er að búa fyrirtækjunum þannig umhverfi að ekki þurfi að fara í breytingar eins og hér er gert enda er það sagt berum orðum í frumvarpinu að verið sé að bregðast tímabundið við áframhaldandi greiðsluerfiðleikum fyrirtækja. Svona hljóðaði það líka síðast. Það er verið að bregðast tímabundið við áframhaldandi greiðsluerfiðleikum fyrirtækja og það er mjög bagalegt og í raun og veru ekkert annað að gera í þeirri stöðu sem við erum en æskilegra hefði verið að umhverfi fyrirtækjanna væri þannig að ekki þyrfti að bregðast við á þennan hátt.

Það er líka mikið áhyggjuefni — sérstaklega ef maður talar um þau fyrirtæki sem hér eru og auðvitað öll fyrirtæki af því að hagkerfið okkar er allt eitt samspil og ein heild — það sem kom fram í morgun um minnkun á hagvexti. Við fórum inn í árið 2012 með miklar væntingar um 2,5–2,7% hagvöxt, inn í grunninn í fjárlagagerðinni, tekjuhluta fjárlaga. Við endurskoðunina við gerð fjáraukalaga síðasta haust voru þær væntingar lækkaðar niður í 2,5%, jafnvel 2,3% en menn stöldruðu við 2,5%. Hæstv. forsætisráðherra hefur margoft í máli sínu bent á þá staðreynd að hagvöxtur hér sé þó 2,5% og það sé betra en í mörgum öðrum ríkjum Evrópusambandsins eða í Evrópu. En síðan kemur dómurinn í dag sem segir okkur að hagvöxturinn er ekki 2,5%, hann verður 1,6%.

Það er grafalvarleg staða og hefur gríðarlega miklar afleiðingar og það þekkjum við. Staðreyndirnar eru þessar. Við getum síðan komið upp í pólitískar kappræður um það hvort ríkisstjórnin hafi staðið sig vel og illa. Allir vita mína skoðun á því, hún hefur algerlega brugðist í atvinnuuppbyggingu og líka í sambandi við skuldavanda heimilanna, það hangir hvort við annað. En það er hins vegar algerlega ljóst í þeim málum að það eru niðurstöðutölurnar sem tala og yfir því verður maður að lýsa miklum vonbrigðum. Maður hafði reyndar miklar áhyggjur af þessu og hugsum það aðeins rökrétt.

Við höfum verið að ganga á framtíðarsparnaðinn með því að taka út séreignarsparnaðinn til að milda það sem gerðist hjá fólki við hrunið, bæði lækkuðu tekjur fólks, fólk missti vinnuna, starfshlutfallið var lækkað og allt sem þar hangir saman. Þá var sú leið farin að leyfa úttekt á séreignarsparnaði. Og hver hefur sú braut verið hjá okkur? Fyrst var það sett tímabundið og svo aftur tímabundið og svo í þriðja skipti tímabundið og svo var því hætt. En í fjárlögum 2013 var það sett inn aftur, tekið upp aftur. Þá erum við að ganga á framtíðarsparnaðinn sem þýðir að við verðum af tekjum í framtíðinni þegar sá séreignarsparnaður átti að koma til útgreiðslu. Það sem hefur verið að drífa áfram hagvöxtinn, oft verið kallað froðan, er einkaneyslan sem er að draga hann áfram, ekki atvinnusköpunin sem er í sögulegu lágmarki, atvinnuvegafjárfestingin er í sögulegu lágmarki. Það eru rosalega mörg dökk ský á himni þannig að menn verða að fara varlega.

Ég hélt reyndar að menn mundu skipta um gír, hugsun eða bregðast öðruvísi við ábendingum annarra eftir hrunið, að menn hefðu þó lært það af hruninu. Mér er mjög minnisstætt þegar aðalhagfræðingur Seðlabankans kom fram, þegar nýbúið var að gera kjarasamningana, og benti á þær hættur sem fólust í gerð þeirra. Ég upplifði það í viðbrögðum í fjölmiðlum, ég veit ekki hvort það var algerlega réttmætt hjá mér, að sá ágæti maður væri að tala í tómarúmi. Það var túlkað þannig af sumum að hann væri á móti launahækkunum. Hann fjallaði ekki um það, það eru allir mjög hlynntir því að hækka laun til fólks ef hægt er þannig að fólk hafi meiri ráðstöfunartekjur. Það er enginn á móti því, ekki einn einasti maður, sama hvar hann stendur í flokki eða við hvað hann vinnur. En þessi ágæti maður var einfaldlega að benda á að farið gæti af stað víxlverkun sem við þekkjum frá gamalli tíð.

Við bjuggum í áratugi við þær aðstæður, allt þar til þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir fyrir rúmum 20 árum, og við erum að detta inn í þann feril aftur. Við sjáum nýjustu tölur um verðbólguna, hún er að hækka mjög mikið, og það var bent á hið augljósa sem blasir við okkur. Það sem kemur fram í þessu frumvarpi um frestun gjalddaga er hið augljósa, það sem þessi ágæti maður var að benda á. Ef menn fara í of miklar launahækkanir — ekki standa deilur um að allir vilja bæta hag heimilanna og fólksins í landinu — og ekki er innstæða fyrir þeim þá væri það fyrir séð að eitthvað annað þyrfti að koma á móti. Sá sem rekur verslun og hækkar laun starfsfólksins verður að auka umsvifin eða hækka vöruverðið. Það gefur augaleið. Það er ekki um nema tvennt að ræða í því. Annaðhvort aukast umsvifin eða það verður að hækka vöruverðið. Ef vöruverð hækkar lendir það í vítahring og þá minnkar verslunin hægt og bítandi og þá fækkar starfsfólki þannig að þetta hangir allt á sömu spýtunni. Það var varað við, menn voru hvattir til að fara varlega, en ekki var að neinu ráði tekið undir ábendingar eða gagnrýni — ég veit ekki hvaða orð ég á að nota yfir það — þessa ágæta manns, við komumst einhvern veginn ekki lengra í umræðunni.

Það er líka gríðarlega alvarlegt vegna þess að kjarasamningarnir — ef við setjum það í samhengi við það sem er að gerast hjá okkur núna, þær fréttir sem við vorum að fá — voru mjög framhlaðnir, þ.e. það voru eingreiðslur í upphafi þeirra sem skiluðu mjög skarpt tekjum inn í ríkissjóð og til sveitarfélaga, gerði það að verkum að tekjur ríkissjóðs fóru upp, reyndar útgjöld líka en nettóniðurstaðan varð sú að ríkissjóður hafði meiri tekjur en útgjöld af samningunum. Við sjáum það í fjáraukalagagerðinni á því ári sem þeir voru gerðir hvaða áhrif það hafði á stöðu ríkissjóðs. Það er því mjög mikilvægt að menn vandi sig við að skapa fyrirtækjunum það rekstrarumhverfi sem þarf að vera.

Það þarf að vera þessi hvati, eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir kom inn á, í kringum stofnun fyrirtækis, þ.e. að menn fari af stað með meðalstór fyrirtæki. Eins og við vitum eru fyrirtæki yfirleitt stofnuð í kringum einn, tvo eða þrjá aðila og yfirleitt er fólkið sem stofnar þau að vinna í þeim og það er gríðarlega mikilvægt að skapa þær aðstæður að fyrirtækin geti þrifist og gengið vel. Þannig verður verðmætasköpunin til. Ekki hefur vantað hugmyndaflugið hjá stjórnmálamönnum um auknar álögur og ekki skortir þá sömu hv. stjórnmálamenn hugmyndirnar um það í hvað eigi að eyða peningunum. Þeir líta oft og tíðum á það sem sjálfgefið að aðrir afli peninga en þeir eyði þeim.