141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[14:56]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu sem endurspeglaði í hvers lags erfiðleikum íslenskt atvinnulíf á. Verið er að endurflytja mál um dreifingu á gjalddögum á vörugjaldi og virðisaukaskatti, sem hafa hækkað allverulega á þessu kjörtímabili þrátt fyrir aðvörunarorð okkar margra um hvaða áhrif þessi endalausa gjaldahækkana- og skattstefna núverandi ríkisstjórnar hefur haft í för með sér.

Í fyrsta lagi vil ég spyrja hv. þingmann að því hvort hann viti til þess að lagt hafi verið mat á hverju það hafi skilað sér í hækkuðum skuldum verðtryggðra lána að ríkisstjórnin skuli hafa hækkað virðisaukaskatt og vörugjöld almennt svo mikið sem raun ber vitni. Nú horfum við upp á það, miðað við ástandið í samfélaginu, að með því að hækka skatta og gjöld hefur það þau óæskilegu áhrif að verðtryggð lán heimilanna sem eru um 1.400 milljarðar í dag hækka samhliða því. Fyrri spurning mín er hvort ríkisstjórnin hafi með þessum aðgerðum verið að vinna að hagsmunum heimilanna í landinu.

Ríkisstjórnin beitti sér sérstaklega fyrir því að hækka vörugjöld af stærri bílum, jepplingum. (Gripið fram í.) Nú höfum við orðið vör á þessum óblíða vetri, dæmigerða íslenska vetri, að fólk á landsbyggðinni verður einfaldlega að geta verið á stærri bílum til þess að komast á milli staða. (Gripið fram í.) Nú hefur ríkisstjórnin hækkað álögur sérstaklega á vörugjöld þessa bílaflota. Telur hv. þingmaður að ríkisstjórnin sé með stefnu sinni virkilega að huga að hagsmunum landsbyggðarinnar?