141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[15:59]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kemur í umræðu sinni um atvinnumál í landinu akkúrat að kjarna málsins, þ.e. hvernig ríkisstjórnin hefur komið fram gagnvart undirstöðuatvinnugreinum í landinu eins og sjávarútvegi, ferðaþjónustu, stóriðjunni, og kannski sérstaklega gagnvart sjávarútveginum og stóriðjunni. Mér finnst eins og þegar kemur fram skoðanakönnun með slæmri útkomu fyrir ákveðna stjórnmálaflokka þá komi forustumenn þeirra flokka fram og segi: Heyrðu, ég er hér í stríði. Ég er í stríði gagnvart einhverjum vondum útgerðarmönnum og vondri stóriðju.

Það er verið að ala á sundrungu og það af forustumönnum ríkisstjórnarinnar á tímum þar sem við ættum að vera með ríkisstjórn sem ætti að reyna að auka samheldnina í samfélaginu og segja: Við getum gert þetta saman. Nei, þess í stað, þegar stefna stjórnarinnar er komin í öngstræti, er komið fram og sagt: Við munum ekkert gefa eftir gagnvart þessum aðilum.

Hver er staðan eftir stefnubreytingu stjórnvalda í sjávarútveginum og skattlagningu þar? Hverjir eru það helst sem eru að hverfa út úr atvinnugreininni? Jú, það eru meðalstór fjölskyldufyrirtæki sem eru núna að selja kvóta sinn til stærri aðila innan kerfisins. Var það markmiðið með frumvörpum ríkisstjórnarinnar um kvótamálin að smærri og meðalstór fyrirtæki hrökklist út úr greininni? Var það markmiðið með stefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart ferðaþjónustunni að koma í veg fyrir að heilu hótelin yrðu byggð upp vítt og breitt um landið?

Mér er stundum alveg fyrirmunað að skilja hvernig ríkisstjórnin hefur komið fram gagnvart atvinnulífinu í landinu. Það erum ekki bara við í minni hlutanum á Alþingi sem getum dæmt um þetta. Alþýðusamband Íslands hefur sagt sig úr lögum við þessa ríkisstjórn, vill ekki tala við hana, vill ekki eiga oftar orðastað við hana, og eins er með Samtök atvinnulífsins. Það erum því ekki bara við sem höldum þessu fram. Það er mér óskiljanlegt hvernig ríkisstjórnin hefur (Forseti hringir.) haldið á málum er snerta atvinnulífið í landinu.