141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

630. mál
[11:38]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli mínu er lagt til í ákvæði til bráðabirgða að nefnd skoði hvort endurgreiðslur námslána geti komið til frádráttar tekjuskattsstofni lánþega. Hugsunin á bak við það, eins og ég nefndi áðan, var að viðkomandi sem hefði sótt sér menntun og nýtt til þess námslánakerfið nýtti menntunina á Íslandi. Það er í sjálfu sér ekki úr vegi að þessi nefnd taki það til skoðunar sem hv. þingmaður spyr hér um, þ.e. að það geti komið til frádráttar tekjuskattsstofni lánþega ef viðkomandi, til að mynda heilbrigðisstarfsfólk eða annað menntað fólk sem kann að vera skortur á á einstökum stöðum úti um land, nýtir sér menntun sína þar. Það er sú leið sem við töldum vænlegra að kanna en að auka hlutfall endurgreiðslna, hreinlega upp á einfaldleika kerfisins að gera. Þessi nefnd getur hins vegar tekið þetta til skoðunar.