141. löggjafarþing — 96. fundur,  9. mars 2013.

gjaldeyrismál.

668. mál
[14:13]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að sjá samstöðuna hér inni og þau sterku skilaboð sem við gefum í dag. Ég vil þó upplýsa að gefnu tilefni að það kom mjög skýrt fram í nefndinni að eftirlit með eftirlitinu er á hendi bankaráðs Seðlabanka Íslands og það kom mjög skýrt fram að það getur fengið allar þær upplýsingar sem það vill. Það er mjög mikilvægt. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta hér og tel mikilvægt að það komi fram er að uppi hafa verið meiningar um að það sé ekki. Það kom hins vegar afskaplega skýrt fram að svo er. Það er mjög mikilvægt í þessum efnum sem öðrum að við höfum eftirlit með eftirlitinu. Í þessu tilfelli er ljóst að það á að framkvæmast af hálfu bankaráðs Seðlabanka Íslands.