141. löggjafarþing — 96. fundur,  9. mars 2013.

gjaldeyrismál.

668. mál
[14:17]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Eins og aðrir sem hér hafa talað fagna ég þeirri miklu sátt sem er um þessa niðurstöðu sem skapar væntingar um að menn muni í framhaldinu vinna saman að því að leysa þann vanda sem verið er að bregðast við með þessari lagasetningu.

Þessi lög eru tilkomin af illri nauðsyn, vegna þeirrar efnahagslegu stöðu sem landið er í, en þau eru líka áminning um mikilvægi þess og gagnsemi að hafa enn stjórn á eigin peningamálum og geta gripið til nauðsynlegra ráðstafana þegar menn standa frammi fyrir erfiðleikum eins og þeim sem íslenskt samfélag og efnahagslíf landsins stendur frammi fyrir núna.