141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[18:58]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Það að vera í atvinnurekstri í gjaldeyrishöftum, þar sem sérstaklega lífeyrissjóðirnir hafa orðið verulega umframgetu til fjárfestinga en takmarkaða fjárfestingarkosti, eru mjög óheppilegar aðstæður, ekki hollar neinu samfélagi og alls ekki til lengri tíma. Það er brýnt að við finnum einhverja leið til að komast út úr þeim.

Ein leið væri auðvitað að heimila lífeyrissjóðunum með einum eða öðrum hætti að taka þátt í fjárfestingum erlendis, heimild sem þeir hafa ekki almennilega í dag. Ég held að rétt sé að þörf þeirra, bara miðað við löggjöf eins og hún var, til að fjárfesta erlendis til þess að dreifa áhættunni sé orðin verulega brýn.

Annar kostur væri auðvitað að taka umræðu um hvort lífeyrissjóðirnir ættu að eiga möguleika á að eiga hluti í grunnþjónustufyrirtækjum á Íslandi og þá um alla tíð, vera ekki að kaupa og selja eins og til að mynda Landsnet. Ég hef stundum talað fyrir því að ef stofnað væri eitt hlutafélag um dreifihluta raforkukerfisins væri lífeyrissjóðunum gert kleift að kaupa í því af því að þær tekjur eru „regúleraðar“ og 3,5% ávöxtun væri tryggð. Þá gætu lífeyrissjóðirnir sannarlega ávaxtað pund sitt nægilega samkvæmt lögum til að tryggja landsmönnum lífeyri en um leið tekið þátt í því að byggja upp grunnþjónustuna. Þá umræðu þarf vissulega að taka og verður þörf á ef ástandið varir áfram.