141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[19:00]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er stundum talað um kostnað okkar af gjaldeyrishöftunum. Kannski hefur það verið svolítið óljóst í huga okkar í hverju slíkur kostnaður getur falist. Eins og hann birtist gagnvart lífeyrissjóðunum er enginn vafi á því að kostnaðurinn við gjaldeyrishöftin felst m.a. í því að lífeyrissjóðirnir verða af mögulegum fjárfestingartækifærum erlendis sem gætu gefið þeim aukna arðsemi til að standa undir þeim greiðsluskuldbindingum sem þeir takast á hendur þegar við greiðum peningana okkar í lífeyrissjóðina.

Það er annars vegar og hins vegar er auðvitað hitt, sem skiptir mjög miklu máli, að lífeyrissjóðirnir geti vegna eðlis síns dreift áhættu sinni. Út af fyrir sig get ég því líka alveg tekið undir að ekki sé óskynsamlegt að opna heimildir til að þeir taki þátt í að kaupa verðbréf, hlutabréf sem er ekki á skráðum markaði, m.a. líka til að dreifa áhættu sinni og hafa ekki öll eggin í sömu körfunni.

Það sem maður veltir hins vegar fyrir sér, og er auðvitað hlutur sem þarf að fá svarað, er að þegar lífeyrissjóðirnir fara af stað og kaupa í óskráðum bréfum, hvort sem það eru verðbréf, skuldabréf, hlutabréf eða eitthvað af þeim toganum, þekkjum við líka að lífeyrissjóðirnir gera ávöxtunarkröfu, þeir þurfa að hafa drjúga ávöxtun til að standa undir greiðsluskuldbindingum sínum af miklu fé eins og allir vita. Þegar um er að ræða óskráð bréf er því að minnsta kosti sú áhætta til staðar að arðsemiskrafan geti orðið meiri vegna þess að meiri áhætta kann að vera fólgin í því að kaupa óskráð bréf en skráð. Það er þó ekki einhlítt eins og ég ætla að fara aðeins yfir í ræðu minni á eftir.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann óttist ekki að við þær aðstæður þegar mjög er kallað eftir fjármunum inn í atvinnulífið geti niðurstaðan orðið sú að ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna verði býsna há, þeir muni þá eingöngu fara í fyrirtæki sem sýna mjög góða arðsemi og (Forseti hringir.) þannig geti orðið takmarkað gagn af því, a.m.k. fyrir sprotafyrirtæki sem eru rétt að hefja starfsemi sína.