141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

625. mál
[19:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég held að í því tilfelli hafi það einfaldlega verið svo að kappið var mikið af okkar hálfu. Við töldum þetta vera þannig mál að við vildum svo gjarnan ganga ef til vill lengra og menn gengu þarna aðeins og langt. Núna erum við komin að niðurstöðu sem ég tel að eigi eftir að gagnast vel. Við verðum svo að vona, ég og hv. þingmaður, að í fjármálaráðuneytinu verið ráðherra sem er sömu skoðunar og við og leggi málið þá fram. Ef ekki, ættum við kannski að geta sameinast um að gera slíkt saman á næsta þingi vegna þess að ég held að mikilvægt sé að gera það. Við þurfum að koma af stað fjárfestingu. Mörg fyrirtæki eru í góðri stöðu í dag en þurfa innspýtingu til að taka næstu skref í starfsemi sinni og þurfa þar af leiðandi fjármagn. Ég held að þetta mál muni skipta gríðarlega miklu, alveg eins og það sem við hv. þingmaður erum að tala um núna. En ég held að það sé rétt sem hv. þingmaður segir að hugsanlega muni smærri fyrirtækin ekki hagnast á þessari leið en þau munu svo sannarlega gera það á hinni, þ.e. skattaívilnunum. Þetta tvennt ætti því að geta gefið fyrirtækjum í landinu töluverða innspýtingu og það er gott að við getum reynt að sameinast um það.

Ég vona svo sannarlega að efnahags- og viðskiptanefnd sjái sér fært að afgreiða málið á þessu þingi þannig að lífeyrissjóðirnir geti farið að setja þessa 100 milljarða inn til verka í atvinnulífinu og stuðlað þannig að vexti í samfélaginu, sem við þurfum sárlega á að halda.