141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að taka undir það mat hv. þingmanns að þeir þættir sem þingmaðurinn nefndi og eru helgaðir landsbyggðinni eru bæði mjög góðir og skemmtilegir og njóta vinsælda eftir því. Það er áminning um að menn sinni því vel.

Varðandi spurninguna um hvort þetta sé ekki fyrst og fremst spurning um að hafa skýra kröfu um að það komi efni utan af landi frekar en hvar menn eru staðsettir hallast ég að því að ef menn skoða það út frá því hvernig best sé að fá sem mest og áhugaverðast efni utan af landi komist þeir að þeirri niðurstöðu að æskilegt sé að hafa fulltrúa sem víðast um landið. (ÞKG: Eins og í Hafnarfirði.) Hv. þingmaður kallar fram í að það þurfi fulltrúa Ríkisútvarpsins í Hafnarfirði. Það sem ég á við er að menn þurfi að vera með puttana á púlsinum á hverjum stað. (Forseti hringir.) Það getur vel verið að menn gleymi stundum Hafnarfirði og eitthvað merkilegt sem er að gerast þar fari fram hjá þeim en ég þarf að koma aðeins betur inn á það í næsta andsvari ef virðulegur forseti leyfir.