141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:15]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt að þegar ríkisstjórnin sem nú situr og ég átti sæti í um tíma tók við var það fyrst og fremst einkavæðing Ríkisútvarpsins sem réð umræðunni. Þeir flokkar sem höfðu áður verið í ríkisstjórn börðust fyrir nánast allsherjareinkavæðingu á Ríkisútvarpinu. Þegar tillagan um að loka starfsstöðvunum kom inn í ríkisstjórnina var ég á móti henni.

Ég tel að í lögunum eigi að vera skýr krafa um starfsstöðvar, eða þá að flytja allt útvarpið út á land. Það eiga að vera starfsstöðvar því að annars verður þetta aldrei nema í skötulíki og fyrst og fremst í einhverjum afsökunartón. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir landið í heild að við rekum starfsstöðvar og að þær séu settar í forgang í starfsemi útvarpsins og hvernig þær birtast. (Forseti hringir.) Ég tala nú ekki um þjónustuna við sjófarendur meðfram ströndum landsins en það er líka mikilvægt að efla þá þjónustu og á einnig að setja hana í forgang, frú forseti.