141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[21:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir margt, þó ekki allt í ræðu hv. þm. Skúla Helgasonar varðandi þetta mál. Ég verð að segja að oft þegar ég hef hlustað á hv. þingmann — það er aldeilis ekki í öllum málum en þó í þessu máli — þá eru þeir fletir sem við getum sameinast um fleiri í þessu máli en færri.

Þó að ég sé ekki og hafi alls ekki viljað vera á meirihlutaáliti þessa máls því að ég tel enn ákveðnum hlutum vera mjög ábótavant og hef farið yfir það, m.a. út af skilgreiningu á hlutverkinu, að ekki skuli vera tekið á ákveðnum öðrum þáttum eins og það hversu víðtækt Ríkisútvarpið nýtir sér til dæmis heimildina í 16. gr., vil ég engu að síður draga fram það sem vel er gert og hef gert það áður í þessu máli. Menn eru að reyna að setja, hvort sem menn segja af veikum mætti eða ekki, ákveðna varnagla. Menn hafa hlustað og reynt að koma til móts við ákveðin sjónarmið þó að ýmsum finnist ekki nóg að gert og örugglega mörgum, ekki síst í mínum flokki, sem finnst að taka hefði átt ýmis önnur skref. Með tilliti til þess að það er verið að taka skref varðandi auglýsingatakmörkunina, varðandi kostunina, takmarka það umfang sem Ríkisútvarpinu var upphaflega ætlað í 16. gr., hefur nefndin að mínu mati unnið vel í þessu máli og því ber að fagna. Um leið og ég segi þetta vil ég undirstrika það sem ég hef sagt í ræðu og hjó eftir að hv. þm. gat þess líka að ábyrgð allsherjar- og menntamálanefndar að fylgja málinu eftir er mikil, að auglýsingaþakið verði ekki bara orðin tóm. Komi í ljós að auglýsingaþakið, eins og ýmsir hafa bent á, skipti engu máli af því að ástandið sé þannig í dag að RÚV muni ekki ná upp í þakið þá verður allsherjar- og menntamálanefnd að fylgja málinu eftir og sinna eftirlitshlutverki sínu (Forseti hringir.) hvað þetta varðar. Ríkisútvarpið stendur vel á mörgum sviðum en það þarf að halda því eins og mörgum öðrum stofnunum við efnið til að gera enn betur í þágu samfélagsins.