141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

störf þingsins.

[10:30]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Í gær var sagt frá því í fjölmiðlum að gestir á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis hefðu haldið því fram og fullyrt að skattkerfið á Íslandi væri orðið svo flókið að það eitt og sér væri orðið sérstakt vandamál. Því til viðbótar var haldið fram þeirri skoðun þeirra að skattar á Íslandi væru það háir að það réttlætti það að borga þá ekki, þ.e. að sérfræðingar á fundi efnahags- og viðskiptanefndar áttu að hafa haldið því fram að það væri réttlætanlegt að svíkja undan skatti vegna þess hve háir skattarnir væru á Íslandi og skattkerfið flókið.

Mér fannst þetta athyglisverð frétt af fundinum, setti mig í samband við nefndarmenn okkar í efnahags- og viðskiptanefnd en enginn kannaðist við að hafa heyrt þessi orð sögð. Enginn kannaðist við að hafa heyrt slíkar fullyrðingar á lofti á nefndarfundinum. Var þá úr vöndu að ráða og setti ég mig í samband við gesti fundarins og lagði fyrir þá þá spurningu hvort rétt væri eftir þeim haft í fjölmiðlum og tilvitnunum þingmanns Sjálfstæðisflokksins sem vitnaði til þeirra. Skemmst er frá því að segja að enginn þessara fulltrúa staðfesti að þetta væri eftir þeim haft, þeir sögðust ekki hafa haldið því fram sem eftir þeim er haft í fjölmiðlum af fulltrúa eða fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í nefndinni. Þetta voru fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands, fjármálaráðuneytinu og ríkisskattstjóra. Það hefði verið frétt, virðulegi forseti, ef ríkisskattstjóri hefði haldið því fram að skattar á Íslandi væru það háir að það réttlætti að hans mati skattsvik og undanskot.

Það var hins vegar ekki frétt. Ég spyr sjálfan mig: Er engin leið fyrir þingið að verja gesti sína, verja gesti þingnefnda fyrir slíkum rógburði, útúrsnúningi eða réttara sagt (Forseti hringir.) haugalygi þingmanna sem þeir hafa eftir þeim í fjölmiðlum án þess að þeir geti varið sig? Hver er réttur gesta þingnefnda hvað þetta varðar? Ég hvet hæstv. forseta til að skoða þetta mál sérstaklega (Forseti hringir.) með það í huga.