141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

framgangur þingsályktunar um bætta heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungs fólks.

602. mál
[11:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna og þakka fyrir að vakin skuli athygli á þessum þætti heilbrigðismála okkar. Heilbrigðismál á Íslandi hafa verið til fyrirmyndar fram undir þetta að minnsta kosti, það er ljóst að mjög hefur verið þrengt að stöðu heilbrigðismála síðustu árin. Við sjáum birtingarmynd þess á Landspítalanum og víða úti um landið. Við getum ekki horft fram hjá því að þar eru verkefni sem við verðum að takast á við á allra næstu árum.

Engu að síður eru lífslíkur hér hvað hæstar í heiminum og við getum vænst þess að verða mun eldri en áður var. Það er hins vegar ljóst mál, af því að hér hefur verið nefnd velferðarstefna sem velferðarnefndin er með til umfjöllunar, að það eru tilteknar brotalamir í heilbrigðismálum okkar. Hér hefur verið bent á einn þátt þeirra mála. Einnig hefur verið vakin athygli á því sem snýr að geðheilbrigðismálum og að ýmis þjónusta fyrir eldri borgara er ekki sem skyldi. Bent hefur verið á að til að mynda þjónusta sem snýr að fötluðum einstaklingum er ekki eins og hún gæti best verið. (Forseti hringir.) Við þurfum því að takast á við stór mál en ég fagna þeirri umræðu sem hér hefur farið fram.