141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

breytingar á stjórnarskrá.

[10:46]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir þau sjónarmið sem mér finnst liggja að baki hjá hv. þingmanni að ekki á að vera auðvelt að breyta stjórnarskránni. En hér er um að ræða tímabundið ákvæði sem er virkt á næsta kjörtímabili (Gripið fram í.) og miðað við það að við höfum ekki náð lengra með stjórnarskrána finnst mér alveg ganga að samþykkja slíkt breytingarákvæði til að við getum undið okkur í það verkefni sem við áttum auðvitað að klára á kjörtímabilinu; að endurskoða stjórnarskrána, fara í heildarendurskoðun á henni. Mér sýnist að mikill hluti hennar verði eftir ef fram heldur sem horfir. Við eigum að einbeita okkur að auðlindaákvæðinu og beina lýðræðinu ef það er mögulegt.

Af því að hv. þingmaður minnist á starfsáætlun þingsins og hvað ég sé eiginlega að tala um að taka inn stórmál vegna þess að samkvæmt áætlun á þingi að ljúka á morgun, þá er sú starfsáætlun ekkert heilög í mínum huga. (Gripið fram í.) Þingmenn geta vel unnið fram í næstu viku og lokið þeim stóru málum sem á eftir að klára, ekki bara um stjórnarskrána heldur ýmsum stórum mál sem snerta heimilin í landinu (Forseti hringir.) og atvinnulífið, sem hv. þingmaður og hennar flokkur er alltaf að tala um. (Gripið fram í.) Eigum við að láta stranda á því að við treystum okkur ekki til að vinna í næstu viku til að ná þessum málum fram?