141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[17:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um náttúruvernd og er málið mjög umfangsmikið. Það er ljóst, og er í raun eðlilegt, að menn hafa á því ýmsar skoðanir og eru ekki allir sammála um það í heild. Miklar breytingar eru lagðar til. Það vekur töluverða athygli að svo viðamiklar breytingar séu lagðar til á máli sem hefur komið fram áður, menn hefðu átt að hafa tíma til að fara yfir þetta, en svo virðist sem það hafi ekki dugað til. Ýmislegt hefur verið gagnrýnt í þessari umræðu og það sem eftir stendur af henni verða margar athugasemdir gerðar við málið. Ljóst að ýmsar hugmyndir eru uppi varðandi það sem þarf að lagfæra í málinu í heild.

Það vekur nokkra athygli að margir hafa komið með athugasemdir um hvernig staðið hefur verið að gerð málsins. Af ýmsum athugasemdum við málið og af þeim orðum sem látin hafa verið falla það sem af er umræðunni virðist ljóst að samráð hafi verið af skornum skammti.

Hægt er að tala um ýmis atriði í þessu sambandi en mig langar í fyrsta lagi að nefna að mér sýnist að verið sé að færa töluvert af valdi, ef ég má orða það þannig, frá stjórnsýslueiningum úti á landi til Reykjavíkur, að verið sé að koma hlutunum þannig fyrir. Er ljóst að ýmis sveitarfélög hafa haft áhyggjur af þessu og komið því á framfæri í athugasemdum við málið. Miðstýring í þessum málum er ekki endilega af því góða, það er kannski mikilvægara að hafa skýrar og augljósar reglur sem ekki þarf að túlka eða fylgja eftir með atbeina ráðherra eða ákvörðunum ráðherra með reglugerðarsmíð o.s.frv. Það er mikilvægara að hlutirnir séu hreinlega ljósir og uppi á borðinu, það væri til mikilla bóta.

Borgarbyggð sendi inn athugasemd og þar segir meðal annars að umhverfis- og skipulagsnefnd Borgarbyggðar hafi áhyggjur af því hversu mikið vald yfir öllu því sem sýslað er í dreifbýli er sett í hendur stofnana í Reykjavík. Það er ljóst að sveitarfélagið — og það á við um fleiri sveitarfélög, veit ég — hefur áhyggjur af því að það virðist hafa verið lenskan að toga valdið og toga ákvörðunarréttinn og toga úrlausnirnar, og þá kannski um leið störfin, af landsbyggðinni og til Reykjavíkur.

Þetta er kannski ekkert nýtt í stjórnsýslunni í dag, það er ekkert nýtt að menn standi frammi fyrir þessu á landsbyggðinni. Við þekkjum að það eru ýmsar stofnanir sem ríkisvaldið kemur að eða er með úti á landi — og nefni ég þar til dæmis náttúrustofur sem eru reknar með sveitarfélögunum og ýmsar aðrar stofnanir eða útibú. Það hefur því miður verið lenskan að þessar stofnanir hafa þurft að gefa eftir í því umhverfi sem við höfum verið í undanfarið kjörtímabil. Ég vil til dæmis nefna, sem því miður allt of fáir stjórnarliðar virðast gera sér grein fyrir, að í minni heimasveit, Sveitarfélaginu Skagafirði, hefur opinberum störfum fækkað um milli 40 og 50, í kringum 45, ef ég man þetta rétt. Það er gríðarleg blóðtaka í ekki fjölmennara sveitarfélagi.

Þetta eru störf sem eru verðmæt, þetta eru störf á heilbrigðisstofnunum, þetta eru störf í skólum, vísindastörf o.s.frv. Nú veltir maður fyrir sér hver framtíð náttúrustofanna verður, nái frumvarpið fram að ganga. Um leið koma ákveðin skilaboð, eða ég ætla alla vega að túlka umræðu í fjárlögum og annað á þann veg, um að sveitarfélögin eigi að taka meira á sig af rekstri náttúrustofanna og þess háttar. Þetta eru gríðarlega mikilvægar stofnanir, náttúrustofurnar, og skipta miklu, hægt að vera með mikla starfsemi þar í kringum. En þær þurfa að fá meira frelsi og svigrúm til að starfa sjálfstætt, því að á nokkrum stöðum er verið að benda á að verkefnum sé öllum útdeilt frá höfuðborginni eða að þar sé ákveðið ferli.

Ég verð að viðurkenna það hér í upphafi, herra forseti, að ég hef ekki náð að fara yfir allar athugasemdir, enda bárust nefndinni gríðarlega margar athugasemdir um þetta mál. Þær eru eðlilega misjafnar, sumar jákvæðar en mér sýnist að í miklu fleiri þeirra sé verið að benda á eitthvað sem betur mætti fara.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 8. mars er lagt til að málið verði unnið betur og lagt aftur fram. Ég held að það sé góð tillaga vegna þess að þegar Samband íslenskra sveitarfélaga kemur svona hreint fram í orðavali — menn eru greinilega ekkert að fara í grafgötur með skoðun sína í þessu máli — er ágætt að hlusta eftir því og eiga þá betra samstarf við þennan stóra aðila, hitt stjórnsýslustigið, sem allt of lítill gaumur er gefinn á Alþingi. Það er eins og sveitarfélögin skipti kannski mestu máli þegar einhverjum dettur í hug að fara að hreyfa við verkefnum, að sveitarfélögin eigi að taka yfir eitthvert verkefni. Hver sem hefur nú frumkvæðið að því þá gleyma menn því gjarnan að hlutverk sveitarfélaganna er svo gríðarlega stórt í samfélaginu að það verður að gefa þeim miklu betri gaum.

Ég hef til dæmis verið talsmaður þess að sjá skipulagsvaldið meira hjá sveitarfélögunum vegna þekkingar þar og vegna þess að þar eru menn að vinna með sitt nærumhverfi. Tilhneigingin hefur hins vegar verið sú að reyna að draga þar úr og styrkja miðlægar stofnanir á höfuðborgarsvæðinu til þess að gegna þar meira hlutverki, að hafa meira um skipulagsmál að segja, svo að eitthvert eitt mál sé nú nefnt.

Ég er enn fyrst og fremst að tala um málið sem slíkt, ekki einstakar athugasemdir eða greinar. Það vekur líka athygli mína, eftir að hafa rennt í gegnum sumar af þessum athugsemdum, að ekki er nóg með að Samband íslenskra sveitarfélaga bendi á að vinna þurfi þetta betur heldur virðist sem svo að þeir sem bera ábyrgð á þessu máli hafi ekki haft nokkurn einasta áhuga á að eiga samráð við þá sem eru kannski hvað mest að vinna með náttúruna og vinna með henni, þá sem eru hvað helst tengdir henni og lifa í henni, það eru bændur landsins.

Í umsögn Bændasamtaka Íslands, sem er dagsett 11. febrúar 2013, segir:

„Þegar lög nr. 44/1999 um náttúruvernd voru samin áttu Bændasamtök Íslands fulltrúa í nefnd sem hafði það verkefni með höndum enda voru til umfjöllunar fjölmörg atriði sem snertu bændur og landeigendur með margvíslegum hætti. Hvorki Bændasamtökum Íslands né Landssamtökum sauðfjárbænda var gefið færi á að eiga fulltrúa í nefndinni sem hafði lögin til endurskoðunar veturinn 2010–2011. Eftir að hafa lagt fram ítrekaðar beiðnir um að eiga beina aðkomu að nefndinni var þeim endanlega hafnað, án rökstuðnings. Fjölmörg atriði í frumvarpinu hafa stóra snertifleti við hagsmuni félagsmanna Bændasamtaka Íslands og Landssamtaka sauðfjárbænda. Það er ekki til þess fallið að skapa sátt um mál af þessu tagi að einhverjum stærstu hagsmunaaðilum um náttúruvernd á Íslandi sé úthýst við heildarendurskoðun með þessum hætti.“

Herra forseti. Þetta er með ólíkindum. Íslenskir bændur hafa, að mínu viti og margra annarra, sýnt mikinn dugnað og unnið fórnfúst starf í því að rækta náttúru landsins, halda henni við og vernda. Því miður er gjarnan dregin upp röng mynd af starfi þessa fjölmenna hóps í samfélagi okkar, jafnvel búnar til áróðurskvikmyndir sem svo eru sýndar án nokkurra athugasemda í stærsta fjölmiðli landsins; myndir sem eru þvílíkt endemisbull að það er með ólíkindum að vandaður fjölmiðill skuli setja slíkt efni á dagskrá hjá sér, enda sáu bændur sig nauðbeygða til að svara því sem þar kom fram.

Við höfum séð það víða um land að bændur eru að græða upp sanda, koma í veg fyrir landrof og sandfok, breyta svörtum söndum í gróið land; nota til þess heyrúllur og annað sem þeir geta nýtt sér með góðum árangri. Við höfum séð það og sjáum það víða. Þessi hópur og þessi stétt, bændur á Íslandi, á það svo sannarlega skilið að fá að koma að því að ræða jafnmikilvægt mál og náttúruvernd er. Engum dettur annað í hug en að allir alþingismenn telji náttúruvernd stórmál, hún er að sjálfsögðu stórmál. Íslendingar lifa og hrærast í náttúrunni, hvort sem um er að ræða hafið í kringum landið, gróið land eða fast land eða hvað það er; vatnið sem rennur, besta vatn í heimi, segja sumir, sem notað er til að vökva landið og brynna húsdýrum og mannskepnunni. Þetta er að sjálfsögðu eitthvað sem við öll verðum að virða og hafa í heiðri. Hins vegar getur verið meiningarmunur um hversu langt á að ganga.

Bændur landsins hafa sýnt það í gegnum árin og gegnum aldirnar að þeir eru að hugsa um landið, þeir eru vörslumenn landsins, og þeir eru að sjálfsögðu líka að stunda atvinnurekstur á því landi sem þeir hafa til umráða. Þar af leiðandi er mjög sérkennilegt að ekki hafi verið talað við samtök þeirra eða þeir hafðir með í ráðum þegar frumvarpið var samið.

Hér eru þrjú nefndarálit, nefndarálit meiri hlutans þar sem málið er rakið út frá þeim sjónarmiðum sem þar eru; nefndarálit 1. minni hluta sem er nefndarálit hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar og nefndarálit 2. minni hluta sem er álit hv. þingmanna Birgis Ármannssonar og Árna Johnsens. Í áliti minni hlutans kemur fram töluvert mikil gagnrýni á þessa vinnu alla og þær breytingar sem gerðar eru og skorti á skýringum. Mun ég hér á eftir rekja mig aðeins í gegnum það sem þar stendur.

Ég vil byrja á því að lesa upp eina setningu í nefndaráliti meiri hlutans og velta því upp, með leyfi forseta, sem stendur á bls. 2:

„Löggjöf um náttúruvernd mótast í ríkum mæli af þeim viðhorfum sem uppi eru á hverjum tíma um samspil manns og náttúru og þeim markmiðum sem sett eru á oddinn hverju sinni.“

Ég er svolítið hugsi yfir þessari setningu. Væntanlega er þarna átt við að sú hugmyndafræði sem uppi er í dag, þá væntanlega innan stjórnarmeirihlutans, endurspeglist á einhvern hátt í frumvarpinu. Þá er vert að spyrja: Er eðlilegt að löggjöf sem þessi taki mið af tíðaranda á hverjum tíma, ég orða það bara þannig, er það eðlilegt? Er það til dæmis eðlilegt að við breytum lögum um náttúruvernd á hverju þingi vegna þess að tíðarandinn breytist eða hugmyndir manna um það hvernig lagaumhverfið eigi að líta út? Er eðlilegt að koma þessu á framfæri þannig að löggjöf í náttúruvernd mótist í ríkum mæli af þeim viðhorfum sem uppi eru á hverjum tíma?

Mér finnst þetta svolítið skrýtið og ég geri athugasemd við að lögin séu sett fram með þessari túlkun. Ég held að það sé betra að setja lög, vönduð lög, sem standast tímans tönn. Menn hafa gjarnan nefnt vatnalög frá 1923 sem hafa svo sannarlega staðist tímans tönn, þar var vandað til verka. Ég held að það sé mjög mikilvægt að slíkt eigi við um þessi lög, að þau séu þannig úr garði gerð og unnin á þann veg að þau standist tímans tönn. Það er mikilvægt að ekki verði gengið um lög um náttúruvernd á þann hátt að löggjafinn á hverjum tíma sé alltaf með málið á borðinu hjá sér vegna breytts tíðaranda, vegna þeirra viðhorfa sem uppi eru á hverjum tíma. Ég held að það kunni ekki góðri lukku að stýra. Að baki þessu frumvarpi og allt um kring eru einstaklingar sem hafa eldheitan og sannan áhuga á náttúruvernd og aðilar sem eru í einhvers konar atvinnurekstri og þurfa þar af leiðandi að vinna innan laga um náttúruvernd og taka mið af þeim. Þessir aðilar geta ekki búið við það umhverfi að tíðarandi stjórni því hvernig lagaumhverfið er, geta ekki beðið eftir því hvað stjórnvöld á hverjum tíma ætla sér að gera í málinu.

Hægt væri að velta vöngum yfir ýmsu öðru í nefndaráliti meiri hlutans. Hér er nokkur texti um umferð á vötnum, þ.e. straumvötnum og stöðuvötnum, verið er að taka inn atriði sem fram að þessu hafa verið í vatnalögum. Ég verð að viðurkenna að ég er nokkuð hugsi yfir því hvers vegna sú leið er farin og ég kaupi ekki endilega þær skýringar sem hér eru settar fram. Það er hins vegar ágætt að fram komi, eins og ég skil þetta, að ætlunin sé að virða það að landeigendur, og þeir sem eru með náttúruna í umsjón sinni, vatn í þessu tilfelli, hafi ákveðinn rétt sem er þá til umráða og til hagnýtingar. Sá réttur skilur ákveðin réttindi eftir hjá þessum aðilum, sem ríkisvaldinu og okkur öllum ber að virða. Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta að sinni, kann að gera það síðar í umræðum um þetta mál.

Meri hlutinn leggur til umfangsmiklar breytingar á frumvarpinu. Það verður að viðurkennast að ég hef ekki náð að lesa saman allar þær breytingartillögur sem verið er að gera hér. Eitt og annað hlýtur að vera til bóta með þessum miklu breytingum en annað þarfnast nánari skýringa svo að ekki sé kveðið fastar að orði.

Mig langar að koma inn á þessar breytingartillögur. Neðst á bls. 3 segir, með leyfi forseta:

„Heimilt er bændum og búaliði að aka utan vega á landi, utan miðhálendisins, sem sérstaklega er nýtt til landbúnaðar ef ekki hljótast af því náttúruspjöll. Við eftirleitir er bændum heimilt að sækja sauðfé inn á miðhálendið á léttum vélknúnum ökutækjum með sex hjólum að lágmarki, enda verði þeim gripum ekki náð með öðru móti og ekki talin hætta á náttúruspjöllum.“

Ég leitaði nokkuð eftir því að finna skýringar á því af hverju sex hjól skuli vera undir því farartæki sem þarna má nýta. Ég ímynda mér að það sé vegna þess að það sé mat — ef til vill hafa þær skýringar komið fram fyrir nefndinni, þ.e. að það sé mat manna að slík farartæki fari betur með náttúruna, skilji eftir sig minni ummerki o.s.frv. Að sama skapi er vert að benda á að tæki þessi eru í langflestum tilfellum, ef ekki öllum, þyngri en svokölluð fjórhjól. Það er spurning hvort þetta þurfi ekki að vera skýrara svo að kostur sé gefinn á því að fara á léttari tækjum sem fara þá jafnvel eitthvað hraðar yfir þannig að menn geti fyrr lokið verkefnum af úti í náttúrunni en gerist á þessum vinnutækjum sem sexhjólin eru klárlega. Þetta hlýtur að skýrast hér í umræðunni.

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Einnig er heimilt, ef nauðsyn krefur, að aka vélknúnum ökutækjum utan vega vegna starfa við landgræðslu og heftingu landbrots, vegalagnir, línulagnir og lagningu annarra veitukerfa, björgunarstörf, lögreglustörf, sjúkraflutninga, rannsóknir, landmælingar, landbúnað og viðhald skála og neyðarskýla með sérstöku leyfi Umhverfisstofnunar, enda sé ekki unnt að vinna viðkomandi störf á annan hátt.“

Einnig segir, þannig að það fylgi nú með:

„Ráðherra skal, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, kveða í reglugerð á um undanþágur frá banni skv. 1. málsl. 1. mgr.“

Ég velti því fyrir mér hvort það sé virkilega þannig að þegar sinna þarf lögreglustörfum eða sjúkraflutningum utan vega þurfi í hvert skipti að fá leyfi Umhverfisstofnunar til þess að fara í þann leiðangur. Ég velti því fyrir mér hvort það sé meiningin með þessu ákvæði. Ég trúi því ekki. Ég held í það minnsta að það sé mikilvægt að þegar á líður umræðuna, og menn koma hér og svara fyrir þær spurningar sem bornar verða fram, verði því svarað hvort það sé hugsunin að þegar inna þarf af hendi lögreglustarf eða fara í sjúkraflutninga utan vega þurfi að hafa samband við Umhverfisstofnun, fá þar leyfi til að geta farið af stað. Mér finnst það mjög undarlegt ef ég skil þetta þá rétt.

Það má reyndar segja svo um fleira sem þarna er talið upp. Frú forseti, þegar ég er að lesa þetta fór ég að velta því fyrir mér hvort það að laga raforkukerfið — það hefur kannski farið fram hjá mér, það kann að vera að undanþága sé út af því, ég ætla að geyma mér það þar til ég er búinn að finna það, hvort það falli einnig undir þessa grein.

Ég held að það sé alveg sama hvað menn setja í reglur um akstur utan vega og þess háttar, ef einhver ætlar sér að aka utan vegar og hirðir ekki um afleiðingar þess fyrir umhverfið þá mun hann gera það. Ég tel rangt að ganga mjög nærri þeim sem ganga vel um landið, þeim sem hafa hag af því að ganga vel um landið og hafa hag af því að nytja landið eins og bændum og öðrum þeim sem þurfa að sinna störfum — þarna er talað um sjúkraflutningamenn og aðra, að gera umferðina erfiðari. Ég mun seint trúa því að þessir aðilar skilji eftir sig ljót spor í fallegri náttúru okkar. Það er kannski mikilvægara að gera eftirlitsaðilum kleift að fylgjast betur með okkar fallegu náttúru á þeim tímum sem mest er um þennan utanvegaakstur, þar sem menn eru að skemma náttúruna í fíflagangi eða óvitaskap, að hægt sé að hafa öflugra eftirlit með þyrlum eða hvernig sem það er nú útfært. Það er líka sjálfsagt að þeir sem vísvitandi skemma og jafnvel eyðileggja náttúruna, hvort sem það eru sandar eða mýrar eða hvað það er, svari fyrir það á einhvern hátt. En við verðum líka að átta okkur á því að þær aðstæður geta komið upp að menn viti ekki betur og þekki ekki betur til og þá þarf að taka tillit til þess. En þeir sem vísvitandi eru að eyðileggja íslenska náttúru með því að aka utan vega, skilja eftir sig djúp og ljót för og þess háttar, þeir verða að sjálfsögðu að svara fyrir slíkt.

Ég mun síðar fara yfir þau sektarákvæði og annað sem hér er lagt til, menn hafa ýmsar skoðanir á því. Ég ætla að fara næst yfir nefndarálit hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar, nefndarálit 1. minni hluta, þar sem býsna ítarlega er farið yfir málið, tilgreind ýmis atriði sem athugasemdir eru gerðar við eða bent á að betur megi fara.

Hv. þingmaður bendir á í inngangi að álitinu að margar athugasemdir hafi komið fram. Frumvarpinu fylgir töluverður kostnaður og samt virðist sem hann sé ekki rétt metinn í það minnsta miðað við það sem sagt er um að Náttúrufræðistofnun telji sig til dæmis þurfa meira fé en þarna er nefnt til að sinna hlutverki sínu. Í sjálfu sér er ekkert vit í því að fara fram með þingmál þar sem vitað er að meira fé vantar, þá er betra að viðurkenna það og sýna það svart á hvítu. Náttúrufræðistofnun er enginn greiði gerður með því að hlutverki hennar sé breytt án þess að hún fái það fé sem þarf til að rækja hlutverk sitt nema henni sé ætlað að spara einhvers staðar á móti, ég sé það svo sem ekki þessu máli.

Þingmaðurinn gerir í nefndaráliti sínu ýmsar athugasemdir við orðaskilgreiningar og bendir á að sumar þeirra séu óljósar, villandi eða rangar. Hann vill eðlilega að úr því sé bætt. Það er ekki neinum til góðs að fara fram með mál sem þetta ef ekki er nokkuð ljóst um hvað er að ræða, hvernig „ræktað land“ er túlkað og hvað það þýðir að vera með ræktað land. Ef einhver meiningarmunur er um það er hið augljósa yfirvofandi að málaferli munu einhvers staðar rísa yfir því að óskýrt sé hvað ræktað land er samkvæmt þessum lögum og fer þingmaðurinn ágætlega yfir það í máli sínu.

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að lesa athugasemdir þingmannsins varðandi skilgreininguna á þessu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu fól skilgreining á „ræktuðu landi“ það í sér að eldri tún voru í raun óræktað land og stór hluti af túnum bænda var í raun ekki skilgreindur sem ræktað land. Meiri hluti nefndarinnar hefur gert tilraun til þess að skilgreina orðið ræktað land en þessi skilgreining er á engan hátt fullnægjandi.“

Það er mikilvægt að fara betur yfir það hvort þetta er fullnægjandi, að menn gangi ekki alla leið. Í framhaldinu segir:

„Vissulega eru til landsvæði, tún, engjar, mýrar og önnur svæði sem ekki hafa verið „ræktuð“ (samkvæmt skilgreiningu í breytingartillögu er ræktað land það land sem aldrei hefur verið sléttað, þurrkað, fengið áburðargjöf, jarðvinnslu eða sáningu). Þetta land getur verið land sem er nýtt til beitar fyrir búfénað, t.d. hross og nautgripi, og ætti því að flokkast sem „ræktað land“ eða land í notkun. Frumvarpið heimilar til dæmis tjöldun almennings til skamms tíma á slíkum landsvæðum enda væri þetta svæði flokkað sem „óræktað land“. Skynsamlegra væri að tala um nytjaland og land sem ekki er nytjað.“

Það er alveg ljóst að sé það gert mun túlkunin breytast töluvert eða þannig sé ég það í það minnsta.

Hv. þingmaður gerir í nefndaráliti sínu líka athugasemdir við hvernig orðið „steind“ er skilgreint og er einsýnt miðað við athugasemdina að skoða þarf það betur. Hér er líka fjallað um steingervinga og framandi lífverur, svo að eitthvað sé nefnt, tegund og óbyggðir.

Það verður að segjast eins og er að miðað við þær athugasemdir sem gerðar eru í nefndarálitinu er full ástæða til að skýra þessi heiti eða þær orðaskilgreiningar sem hér eru settar fram.

Fjallað er um undanþágu frá banni við akstri utan vega. Þingmaðurinn bendir á að undanþágur frá reglum um akstur utan vega þurfi að vera vel skilgreindar og skýrðar og helst þyrfti það vitanlega að koma fram í lagatextanum. Það kemur líka fram hér að undanþágur vegna atvinnustarfsemi og björgunarstarfa og annars þurfi líka að vera skýrar.

Síðan segir hér, með leyfi forseta:

„Margir umsagnaraðilar hafa gagnrýnt það að í lagatexta komi ekki skýr ákvæði um undanþágur vegna aksturs utan vega. Fjölmargir aðilar þurfa starfs síns vegna að aka utan vega og yfirleitt er um að ræða akstur á léttum fjórhjólum sem ekki skemma land sé þeim ekið af skynsemi. Það er mikilvægt að slíkar undanþágur séu skýrar og að þær séu samdar í samráði við þá aðila sem málið varða.“ — Svo segir að sú hafi ekki verið raunin o.s.frv.

Síðan er hér eitt mjög áhugavert atriði sem svarar að hluta til því sem ég var að velta fyrir mér áðan varðandi frumvarpið:

„Samkvæmt tillögum meiri hlutans fá björgunarsveitir einungis heimild til aksturs utan vega við björgunarstörf en að öðru leyti eiga æfingar að fara fram á sérstökum æfingasvæðum. Æfingar björgunarsveita við raunverulegar aðstæður eru mikilvægur þáttur“ o.s.frv.

Ég verð að viðurkenna að ég átti eftir að athuga hvort það væri athugasemd við frumvarpið frá Landsbjörgu, ég mun gera það þegar ég hef lokið þessari ræðu minni. En ég tek undir það með hv. þingmanni, í áliti sínu og gagnrýni, að það er mjög mikilvægt að svigrúm björgunarsveita, út af því gríðarlega mikla hlutverki sem þær sinna, til æfinga sé ekki heft. Það er hins vegar sjálfsagt að gera kröfu til þeirra um umgengni og annað og ég veit að því yrði ekki illa tekið. En vitanlega þurfa björgunarsveitirnar að komast í umhverfi sem er sem raunverulegast, sem er sem líkast því sem þær þurfa að fást við á hverjum tíma. Það eru fjölbreyttar aðstæður, það veit ég, og því þarf að vera alveg klárt að slíkt sé hægt verði frumvarpið að lögum.

Síðan segir hér, með leyfi forseta:

„Í tillögum meiri hlutans er lagt til að þeir (að bændum undanskildum) sem þurfi að aka utan vega vegna starfa sinna skuli halda sérstaka skrá um þann akstur og að Umhverfisstofnun eigi að hafa aðgang að þessum upplýsingum þegar þess er óskað.“

Það kann að vera að með nýjustu tækni sé hægt að rekja feril bíls, t.d. bíls sem er að leggja raflínu eða gera við, eitthvað svoleiðis, að hægt sé að fylgjast með því, með GPS-tækni eða einhverju slíku, hvaða leið er farin. Það er jafnaugljóst að kjósi einhver að skrá ekki niður afbrotið, eða hvað ég á að kalla það, þegar farið er út fyrir ramma laganna eða keyrt er utan vega og spjöll unnin, þá sé ég nú ekki að viðkomandi muni endilega sinna því að skrá það verk.

Einnig er bent á það sem er væntanlega prentvilla í tillögu meiri hlutans, það virðist vera farið númeravillt í reglugerðum samkvæmt áliti 1. minni hluta og það verður þá væntanlega leiðrétt. Farið er yfir ýmis önnur mál í þessu ágæta áliti og mun ég fara betur yfir það síðar.

Að lokum vil ég benda á mjög áhugavert graf sem hv. þingmaður er með á síðustu blaðsíðu í nefndaráliti sínu. Það er um útgjöld Náttúrufræðistofnunar Íslands samkvæmt fjárlögum 2007–2013. Þar má sjá að árið 2007 fékk þessi ágæta stofnun 275 milljónir á fjárlögum en nærri 600 milljónir árið 2013. Er mjög forvitnilegt að skoða þetta í samhengi við fjárveitingar til heilbrigðisstofnana, löggæslu og ýmislegs annars. Þetta er væntanlega sú áhersla, sú forgangsröðun, sem við höfum séð á kjörtímabilinu, menn hafa ákveðið að forgangsraða fjármunum til þessarar stofnunar umfram stofnanir í heilbrigðisgeiranum. En það er hlutverk stjórnmálamanna að forgangsraða og það kemur bara skýrt fram í þessu.

Frú forseti. Það mál sem við ræðum hér er gríðarlega umfangsmikið. Að mínu viti er mjög mikil bjartsýni fólgin í því að ætla sér að klára það á þessu þingi í þeim búningi sem það er. Ég er ekki að segja að það sé ekki hægt með einhverjum breytingum en það felst mjög mikil bjartsýni í því að ætla að klára það með þessum hætti. Samkvæmt starfsáætlun er síðasti dagur þingsins á morgun. Ekki lítur út fyrir að hún gangi eftir en þannig er þetta samkvæmt áætluninni. Þetta mál — miðað við þá gagnrýni, miðað við athugasemdir sem komið hafa fram, miðað við þann hugmyndafræðilega mun sem er milli stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka — þarf að þroskast töluvert betur. Ég held að engum sé greiði gerður með að fara með svo mikilvægt mál sem frumvarp til laga um náttúruvernd er í gegnum þingið með bægslagangi og látum í miklu ósætti, það er betra að vanda sig.