141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[20:44]
Horfa

Sigfús Karlsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir ræðuna. Ég hef verið að glugga aðeins í þetta frumvarp til laga um náttúruvernd og sé í því tölur og fjármuni. Þar sem ég vinn við það finnst mér við hæfi að spyrja hv. þingmann, sem situr í fjárlaganefnd, um tvennt sérstaklega. Í sjálfu frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið óbreytt að lögum er reiknað með að útgjöld ríkissjóðs aukist um 24 millj. kr. á síðari helmingi ársins 2013 …“

Þegar maður skoðar nefndarálit frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar eru allt aðrar tölur þar, miklu hærri, á árinu 2013. (ÓGunn: Við erum svo skynsöm.) Það er gott að menn komi með réttar tölur en þá er klykkt út með:

„Ekki er reiknað með fjárveitingum vegna frumvarpsins í fjárlögum fyrir árið 2103 …“

Ég spyr hv. þingmann af því að hann situr í fjárlaganefnd: Eru þetta vinnubrögð sem sæma hinu háa Alþingi og fjárlaganefnd, að koma með kostnaðarauka og brjóta alla ramma? Það er alltaf verið að tala um að reyna að halda fjárlög og gera rétt fjárlög en ég get ekki séð að þetta hjálpi fjárlaganefnd til þess.