141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég hafði hugsað mér að taka til máls um störf þingsins og fyrst og fremst vil ég fagna því að hér fór fram í gær umræða um frumvarp til laga um náttúruvernd. Kvartað hefur verið yfir því að undanförnu að ýmis mál komi seint fram. Það frumvarp sem var til umræðu í gær um náttúruvernd kom inn í þingið í nóvembermánuði. Síðan beitti stjórnarandstaðan þeim ráðum sem hún hefur til að koma í veg fyrir að það kæmist á dagskrá fyrir jól, eins og kunnugt er og menn muna. Hún kom í veg fyrir að það yrði rætt, það þekki ég mætavel. Síðan var frumvarpið fyrsta mál eftir áramót og hefur verið hér í umræðunni og kemur svo loks í þessari viku til mikillar umræðu. Það er í sjálfu sér ágætt og fínt að geta tekist á um þau álitamál sem frumvarpið býður upp á, t.d. eins og varúðarregluna í umhverfisrétti sem það gerir ráð fyrir að sé innleidd í íslensk lög. En það er eins og við manninn mælt að stjórnarandstaðan, bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, berjast harkalega gegn því. Þeir vilja auðvitað ekki varúðarregluna í umhverfismálum í íslenska löggjöf, þeir vilja geta haldið áfram þar sem frá var horfið við Kárahnjúkavirkjun og Lagarfljót. Það er það sem þeir vilja, draga rammaáætlunina til baka. Það er það sem þeir vilja. Það er ágætt að vita það og fá fram í aðdraganda kosninga sem fram undan eru.

Það er líka sérkennilegt þegar hv. 1. þm. Norðvesturkjördæmis fer mikinn í umræðu í gær og segir að hér sé verið að setja lög sem skuldbinda ríkissjóð einhver ár fram í tímann. Ætli það sé í fyrsta skipti? Svo vísar hann á ungmennin á þingpöllunum og segir að þau muni bera byrðarnar. Þetta segir þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Byrðarnar sem íslensk þjóð ber nú eru einkum og sér í lagi þær sem Sjálfstæðisflokkurinn skildi við í árslok 2008. Svo leyfir hann sér að koma hingað og tala um að verið sé að setja skuldbindingar fram í tímann. (Forseti hringir.) Er það ekki alltaf í fjárlögum? (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu. Það er gert með löggjöf dag eftir dag, en svo kemur 1. þm. Norðvesturkjördæmis og býsnast yfir þessu. Hann ætti bara — ég ætla ekki að segja það sem ég vildi segja, en það er honum ekki til sóma.