141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[11:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta mál er svo sannarlega í samræmi við þá stefnu sem við höfum haft til þess að leysa málefni þeirra sem lentu í skuldavanda eftir hrun. Við höfum náð að koma til móts við mjög marga hópa og það kemur vel fram þegar þetta er dregið saman hverju allar þær aðgerðir sem þessi ríkisstjórn hefur gripið til hafa skilað. Þessi hópur hefur orðið eftir vegna þess að við höfum ekki náð samkomulagi við lífeyrissjóðina um með hvaða hætti þetta verði gert og þeir hafa ekki talið að þeim sé heimilt að gera þetta og taka þátt í 110%-úrræðinu.

Þegar fjárlagaskrifstofan talar um fjármuni þá er stabbinn sem er hjá lífeyrissjóðunum umfram 110% um 8 milljarðar kr. Það fer eftir því hvernig samkomulag næst en von okkar er að sú upphæð verði töluvert lægri. Við eigum von á því að hún verði það en ef ég nefni eina konkret tölu þá er það talan sem er hjá lífeyrissjóðunum. Umræðan hefur snúist um að ná samkomulagi um hvernig við skiptum kostnaðinum við niðurfærsluna á þeim hluta.

Varðandi húsnæðisbæturnar þá er það svo sannarlega okkar stefna að koma á einu húsnæðisbótakerfi sem kemur líka til móts við leigjendur og skilar bótum jafnt til leigjenda og kaupenda. Ástæðan fyrir þessu er sú að á Íslandi hefur verið fullmikil áhersla á að menn eigi alltaf að kaupa sér eign, en við eigum auðvitað að hvetja til þess að unga fólkið okkar sé lausbeislaðra og sé ekki að steypa sér í skuldir fyrr en lengra líður á ævina. Þá á leigumarkaðurinn að vera fýsilegur kostur. Með því að milljarður fari til sveitarfélaganna í formi aukinna vaxtabóta á þessu ári erum við að stíga fyrstu skrefin í þessari stefnumörkun til að fylgja henni eftir. Von mín er að það eigi eftir að ganga vel og að við getum síðan innleitt eitt sterkt húsnæðisbótakerfi í framhaldinu.