141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[10:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mér finnst sjálfsagt að upplýsa hv. þm. Birgittu Jónsdóttur um að enginn fundur hefur verið haldinn með þingflokksformönnum um þessa dagskrá. Ég man ekki einu sinni hvenær við ræddum síðast saman, frú forseti, ég verð bara að viðurkenna það, það er að verða svolítið síðan. (Gripið fram í.) Það hefur ekki verið samið um eitt eða neitt, en það er ágætt að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson og fleiri skuli lýsa því yfir að þetta séu áherslumál ríkisstjórnarinnar, þetta séu þau mál sem hún leggur mest kapp á að klára.

Ég vek athygli á því að hér er ekki eitt einasta mál er varðar til dæmis stöðu heimilanna, ekki eitt einasta mál. Það skiptir greinilega engu máli hjá þessari ríkisstjórn að klára einhver mál er varða þak á verðtryggingu eða eitthvað slíkt. Hér á að klára Happdrættisstofu, (Gripið fram í.) áfengislög, starfsmannaleigur, einhver EES-mál og eitthvað slíkt. Það er með ólíkindum að horfa upp á þetta, en hér kemur þetta berlega í ljós. Ríkisstjórnin hefur allt aðrar hugmyndir en allir aðrir úti í samfélaginu um hvað er mikilvægast í landinu en það er að bæta stöðu heimilanna og atvinnulífsins. Hér eru tvö mál er varða stöðu atvinnulífsins, ágæt mál er varða uppbyggingu á Bakka. Ekkert annað er að finna á dagskránni.