141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það er m.a. ágreiningur um formið á orðalagi hvað þessi atriði varðar. Það eru mikilvæg atriði og viðkvæm og er full ástæða til þess að setjast yfir og skoða þau. Ég held að við hljótum að geta rætt þessi mál okkar í milli og hefði kosið að það hefði verið gert áður en umræðan hófst og áður en tillaga kom fram um það í þessum sal. En ég verð að játa það, og ég bið hv. þingmann að leiðrétta mig ef það er með einhverjum hætti misskilningur hjá mér, að það var upplifun mín hér á dögunum þegar framsóknarmenn komu fram með tillögu sína að viðbrögð ríkisstjórnarflokkanna væru með þeim hætti að full ástæða væri til að efast um að við næðum samhljómi í þessum efnum.

Framsóknarmenn lögðu fram hugmynd sem var að stofni til byggð á tillögu auðlindanefndar frá árinu 2000 sem allir flokkar á þeim tíma stóðu að. Þeir urðu fyrir harðvítugum árásum fyrir vikið af hálfu talsmanna ríkisstjórnarflokkanna. Ég verð að játa að þrátt fyrir að margir hefðu haft góð orð um að það hægt væri að ná einhverju samkomulagi um orðalag að þessu leyti afskrifaði ég það nánast í þessum sal þegar ég hlustaði á umræður manna um þetta efni að það væri hægt, a.m.k. á þeim skamma tíma sem nú er til ráðstöfunar.