141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:40]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að ekki var nákvæmlega spurt um þessa tillögu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október. En það voru tvær spurningar sem lutu að efni máls. Í fyrsta lagi var bein spurning um vilja fólks til að hafa ákvæði um þjóðarauðlindir í stjórnarskrá og síðan var útfærð tillaga í frumvarpi til stjórnlagaráðs.

Meginspurningin í þjóðaratkvæðagreiðslunni laut að því hvort menn vildu að það frumvarp yrði lagt til grundvallar nýrri stjórnarskrá og ég hlýt að minna á að sú tillaga sem hér liggur á borðinu, endanleg tillaga frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem við nýtum okkur í þeirri breytingartillögu sem hér er til umræðu, er að stofni til sú sama og var í frumvarpi stjórnlagaráðs með tiltölulega smávægilegum breytingum.

Ég held því að ekkert þarna eigi að koma mönnum á óvart. Frumvarpið hefur legið fyrir mánuðum saman, það eru nokkrar vikur frá því stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skilaði tillögum sínum. Ég held að það sé ekkert sem við þurfum að hræðast í þessu ferli, það er ekkert sem stoppar það að við náum saman nema ef vera skyldi vilji manna til að stíga ekki þetta skref. Það er bara eitt sem við þurfum til að klára málið og það er viljinn til að ná saman. Ég hef þá trú að jarðvegur sé fyrir samkomulag og ég vona að okkur takist að ná því saman áður en við förum heim.