141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[23:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Hann kom inn á þetta mál sem við ræðum aðallega, þ.e. tillögu til breytingar á ákvæðinu um auðlindir í eigu þjóðarinnar. Þar stendur, herra forseti, að ekki megi veita heimild til afnota eða hagnýtingar nema gegn eðlilegu gjaldi og slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli. Er ekki þar með sagt að strandveiðar séu útilokaðar af því að þær greiða ekki eðlilegt gjald fyrir auðlindina? Það þarf að vera jafnræði á milli þeirra og annarra útgerða. Þetta hefur væntanlega verið rætt fyrir löngu og menn hljóta að vita nákvæmlega að strandveiðar verða þá ekki lengur til.

Ég hef nefnilega grun um að þetta ákvæði og þessi breytingartillaga um auðlindina sé bara ekki endanlega útrædd, menn séu ekki búnir að fara í gegnum allar afleiðingar, t.d. fyrir það að minni skip geti ekki lengur fengið lægra gjald eða þurfa að borga minna fyrir réttinn. Ég hygg að þetta ákvæði um auðlindirnar muni hafa töluvert mikil áhrif á útgerð í heild sinni fyrir utan náttúrlega það sem getur virkað af öðrum auðlindum sem ekki hefur verið rætt um.

Telur hv. þingmaður að sú hugmynd að koma með auðlindaákvæði líka flýti fyrir því að sátt náist um breytinguna? Ég var nefnilega mjög sáttur við tillögu formannanna fyrir utan mjög lágan þröskuld, allt að því móðgandi lágan þröskuld, fyrir stjórnarskrá, 25% þjóðarinnar, fjórðungur átti að samþykkja það. Ég var með 50%. Einhvers staðar þarna á milli finnst mér að þessi mörk ættu að liggja en ég gæti fallist á tillögu formannanna að því leyti.