141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir rúmlega áratugalangt farsælt og gott samstarf í þinginu. Það eru mikil forréttindi að starfa með slíku vönduðu öndvegisfólki.

En hvað varðar fyrirspurnina þakka ég hana. Þetta er góð fyrirspurn. Þegar innheimtulögin voru fyrst sett hér eftir margra ára baráttu, en þau voru flutt átta, níu sinnum sem þingmannamál fyrir um fimm árum síðan, var um að ræða mikla réttarbót, nánast byltingarkennda réttarbót fyrir neytendavernd og þá sem er innheimt af. Með þeim var settur skýr rammi og gagnsætt ferli um innheimtu skulda þar sem krafa getur ekki farið í lögfræðiinnheimtu fyrr en eftir ákveðið ferli, fyrr en eftir viðvörun, milliinnheimtu og fleira. Það var mjög mikilvæg réttarbót fyrir skuldara og neytendur í landinu.

Það sem þarf að skoða sérstaklega er það sem þingmaðurinn spurði um, hvernig gangi að framfylgja bannákvæði um að innheimtulaun eigi bara við um þá upphæð sem ekki hefur verið greidd en alls ekki af gjaldfelldri kröfu. Það skiptir mjög miklu máli. Ég tel að í ljósi reynslunnar síðastliðin fimm ár eða tæplega það sé tímabært að endurskoða í heild sinni hvernig hefur gengið að framfylgja innheimtulagaferlinu og fara í gegnum það og hvar þurfi að taka á. Ef framkvæmdarvaldið hefur ekki framfylgt með fullnægjandi hætti skýrum vilja löggjafans, sem ég tek undir að er mjög afdráttarlaus í þessu ákvæði sem var bætt við árið 2010, er sjálfsagt að skoða það og taka upp. Sú skoðun þarf ekki að taka langan tíma. Þingið sjálft getur framkvæmt hana og allsherjar- og menntamálanefnd haft forgöngu um það. Við erum á lokametrum þessa þings og sjálfsagt bíður næsta þings að ljúka þessu verki. Það er hægt að setja það af stað og það mun ég leggja til og því mun ég beita mér fyrir, (Forseti hringir.) hafandi fylgst með þessum málum í mörg ár. Það er sjálfsagt að berja í brestina þar sem þeir eru og bæta góða og mikilvæga löggjöf sem er svo sannarlega réttarbót fyrir neytendur í landinu.