141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:36]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það má lengi rökræða um útfærslu og orðalag í ákvæðum, auðlindaákvæðum og öðru. Hér er breið pólitísk samstaða um inntak auðlindaákvæðisins, eins og við heyrðum í umræðunni hér í vikunni. Kjarninn í því er, eins og segir í upphafi þess ákvæðis sem lagt er til, með leyfi forseta:

„Auðlindir í náttúru Íslands sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.“

Það er auðvitað hápólitískt ákvæði í besta skilningi þess orðs og gríðarlega mikilvægt að það verði fest í stjórnarskrá. Um orðalag að öðru leyti má auðvitað semja og útfæra, en það er kjarninn í ákvæðinu og um það er ágæt samstaða hér, að ég hélt.

Þess vegna vildi ég spyrja hv. þingmann hverju er hv. þingmaður ósammála í þeirri setningu sem ég las áðan, þ.e. að auðlindirnar eigi að vera ævarandi eign þjóðarinnar? Hvað mælir gegn því að ganga hér til atkvæða þannig að meiri hlutinn ráði, í staðinn fyrir að minni hlutinn beiti hér einhverju málsþófsofbeldi gegn því að auðlindaákvæðið verði fært í stjórnarskrá og það tryggt?