141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór yfir það í ræðu minni, eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason heyrði vonandi, að ekki er fullveldisframsalsákvæði í núgildandi stjórnarskrá. Verði farin sú leið að draga umsóknina ekki til baka er það einn parturinn af því að breyta þarf stjórnarskrá. Það verður að horfa fram á það á næsta kjörtímabili að setja nokkurs konar fullveldisframsalsákvæði inn í stjórnarskrána. Það er alveg klárt.

Hvort aðildarumsóknin er forsenda þess að breytingarákvæðið er komið fram núna veit ég ekki, en hitt veit ég að hæstv. þáverandi utanríkisráðherra, formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, lagði ríka áherslu á það árið 2009 þegar stjórnarskrárbreytingar voru til umræðu að breyta breytingarákvæði stjórnarskrárinnar til þess að hægt væri að breyta stjórnarskránni á miðju kjörtímabili til þess að unnt væri að ganga fyrr inn í Evrópusambandið. Það er þekking og staðreynd sem allir vita sem hafa lesið stjórnskipunarrétt og þá staðreynd að umsóknin að Evrópusambandinu liggur inni hjá þeim Brussel-mönnum.

Ég get ekki sett mig í hugarheim þeirra þriggja hv. þingmanna sem leggja þetta frumvarp um breytingarákvæði fram, en ég geld varhuga við því, virðulegi forseti, að hafa í gildi tvö breytingarákvæði á stjórnarskránni sem eru samsíða þannig að þingmenn geti verið að leika sér heilt kjörtímabil og til framtíðar við mögulegar breytingar á stjórnarskránni og fá raunverulega eitthvað val um það hvernig á að breyta stjórnarskránni. Ég geld varhuga við því.