141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom víða við í ræðu sinni, fjallaði um stjórnarskrána, en einnig um atvinnulífið, verðmætasköpunina og stöðuna heilt yfir í þjóðfélaginu. Margt fannst mér nú ósanngjarnt í máli hans hvað snertir stöðu mála núna ef við berum hana t.d. saman við þá stöðu sem við vorum í fyrir fjórum árum þegar núverandi ríkisstjórn tók við. Fyrst og fremst hefur verið lyft grettistaki í ríkisfjármálum og innleiddar gagnmerkar og mjög áhugaverðar nýjungar, t.d. til að auka verðmætasköpun í landinu.

Mig langar að leiða þessa ræðu í þá átt en hv. þingmaður hefur oft komið upp í ræðustól Alþingis og talað um stöðu atvinnulífsins. Að miklu leyti er ég sammála þingmanninum um mikilvægi þess að skapa verðmæti. Við þurfum að gera það til að standa undir velferðarkerfinu. En hvaðan koma verðmætin? Hvaðan koma peningarnir, virðulegi forseti? Hvaðan koma peningarnir til að halda uppi velferðarkerfinu? (Gripið fram í.)

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um álit hans á þeirri skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið McKinsey kynnti nýlega. Nú hefur verið stofnaður hópur eða vettvangur fyrir aðila úr öllum stjórnmálaflokkum, úr atvinnulífinu o.s.frv., til að vinna á grundvelli þeirrar skýrslu um framtíðarstefnumótun um leiðir fyrir Ísland til að auka verðmæti, auka það fjármagn sem er í atvinnulífinu. Hvernig getum við til lengri tíma litið skapað næg verðmæti í samfélagi okkar til að ná verulegum árangri í anda velferðarkerfis og til að bæta hag íbúanna? Hvað finnst hv. þingmanni um þær áherslur sem birtust í skýrslunni? Fagnar hann þeirri nálgun sem þar kemur fram? Sér hann birtast þar leiðir til að auka verðmætasköpun í landinu? Við erum öll að velta fyrir okkur þessum lykilspurningum: Hvernig búum við til verðmæti? Hvaðan koma verðmæti? Hvaðan koma peningarnir?