141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:31]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Það er gott að við getum að minnsta kosti verið sammála um eitthvað. Mig langar í framhaldi af því að velta upp spurningu um 2/3-ákvæðið. Ég lít svo á að sú hugmynd sem er í breytingartillögunni sem við erum að tala um núna, hugmyndin um 2/3 þings, hækki í rauninni þröskuldinn til þess að breyta stjórnarskránni og geri því í rauninni miklu erfiðara en ella að breyta henni nema í sátt, eins og þingmaðurinn kemur sjálfur inn á. Það er afar jákvætt. Ef við horfum til lýðveldistímans hefur langmestan hluta lýðveldistímans verið sú staða á þinginu að a.m.k. einn flokkur hefur verið með nálægt því 1/3 þingmanna. Þannig hefur það verið og því held ég að við ættum að sammælast um að taka upp þessa breytingu, (Forseti hringir.) ég er sammála þingmanninum í því.