141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka upp þráðinn frá þeim sem talaði á undan mér. Það er nefnilega fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins í dag um að samningar í Helguvík séu í nánd. Undirfyrirsögnin á þessari annars gleðilegu fyrirsögn er: „Ótímabær umræða, segir formaður VG.“ Þá hljótum við að spyrja í þessum sal: Hvort er rétt?

Hv. þingmaður Samfylkingarinnar, Björgvin G. Sigurðsson, hefur talað og í greininni er vitnað til hæstv. fjármálaráðherra um að samningaviðræður gangi vel og það væri jafnvel hægt að koma með frumvarp inn í þingið. Á sama tíma segir hæstv. menntamálaráðherra að þetta hafi ekki verið rætt í ríkisstjórn í þó nokkurn tíma og henni finnst ekki tímabært að ræða málið. Ég var á sama fundi og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson nefndi áðan, hjá Hagsmunasamtökum heimilanna í Stapanum í Reykjanesbæ í gær. Ég tek undir með hv. þingmanni varðandi það ákall sem samþykkt var í lok fundarins, að það þurfi að koma í gegn frumvarpi fyrir þinglok til að tryggja að ekki verði selt ofan af heimilunum í landinu meðan óvissa ríkir um niðurstöðu málaferla varðandi lögmæti verðtryggingarinnar. Um þetta þurfum við að taka höndum saman og setja í forgang.

Á þeim fundi heyrðust líka vonbrigði fundarmanna og sumra frummælenda með stöðu mála varðandi álverið í Helguvík. Það er algjörlega morgunljóst að ef Samfylkingin meinar eitthvað með því (Forseti hringir.) að semja við Reykjanesbæ um sams konar ívilnanir og um er að ræða vegna framkvæmdanna á Bakka og eru á dagskrá þingsins verður það að gerast (Forseti hringir.) núna. Suðurnesjamenn eru orðnir langþreyttir á innihaldslausum loforðum, ekki síst þegar 30 og eitthvað dagar eru til kosninga. Þá trúa Suðurnesjamenn ekki slíkum loforðum. Við þurfum frumvarp (Forseti hringir.) fyrir þinglok sem við vitum ekki hvenær verða. Við þurfum samt frumvarp.