141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

umræða um dagskrármál og störf þingsins.

[11:29]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er reynt að gera mikið úr því af hálfu hv. stjórnarliða að verið sé að beita einhverju málþófi í stjórnarskrármálinu. Á sama tíma endurspeglast í umræðunni sú óeining sem er innan stjórnarliðsins um hvernig á að ljúka þessu þingi. Það þarf ekki annað en að vitna í orð Skúla Helgasonar sem talar um stjórnarskrármálið sem eina málið sem þurfi að ljúka á þinginu. Ólína Þorvarðardóttir talar um að ljúki þurfi stjórnarskránni með algerri breytingu, með því að ljúka málinu í heild. Hv. þm. Mörður Árnason talar um að málefnum Bakka verði ekki lokið nema náttúruverndarfrumvarpið fari í gegn og hv. þm. Björn Valur Gíslason og Álfheiður Ingadóttir töluðu gegn Bakka í morgun. Það var ekki hægt að skilja öðruvísi. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson og hæstv. ráðherra Katrín Júlíusdóttir tala um að verið sé að gera sambærilega samninga fyrir álverið í Helguvík á meðan hæstv. ráðherra Katrín Jakobsdóttir segir að málið sé ekki til umræðu.

Í því endurspeglast sú óeining sem er innan stjórnarliðsins (Forseti hringir.) um hvernig á að ljúka þingstörfum. Það hefur ekkert með stjórnarandstöðuna að gera. (Forseti hringir.) Ég endaði ræðu mína í gær á því að segja að nauðsynlegt væri að forseti varpaði (Forseti hringir.) þeirri ábyrgð á forustumenn stjórnarliðsins að þeir komi sér saman um hvernig þeir ætla að ljúka málum hér.