141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[13:02]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Mig langar til að fylgja aðeins eftir andsvari hv. þm. Höskulds Þórs Þórhallssonar áðan og fá að heyra í framhaldi af því hvaða skoðun hv. þm. Árni Johnsen hefur á þeim dagskrárlið sem er hérna til umræðu. Ræða hans fjallaði að mestu leyti um flugvallarmál en hann talaði fyrir því að jafnvel þyrfti að breyta auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar. Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn haft í smíðum eigin útgáfu af stjórnarskránni. Það hefur komið fram í umræðum á Alþingi áður að þar hafi verið í smíðum undirbúningur að nýrri stjórnarskrá.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvaða skoðun hann hefur á því auðlindaákvæði sem liggur fyrir í þinginu í dag, þeirri breytingartillögu sem við erum að ræða hér og nú, hvort hann sé andsnúinn því og þá út af hverju og hvaða breytingar þurfi hugsanlega að gera á tillögunni þannig að hann geti fellt sig við hana.