141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 210/2012 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

564. mál
[22:04]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Hér er mælt fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 210/2012 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn sem fjallar um tæknilegar reglugerðir, staðla, prófanir og vottun.

Það er rétt að taka fram að það mál sem hér er til umfjöllunar var sent til allsherjar- og menntamálanefndar til umsagnar og sú nefnd hefur ekki gert athugasemdir við að hinum stjórnskipulega fyrirvara verði aflétt af umræddri EES-gerð.

Utanríkismálanefnd hefur einnig áður, í samræmi við 2. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála, fjallað um reglugerð nr. 286/2012, er varðar heiti textíltrefja, til mats á því hvort efnislegra aðlagana væri þörf.

Með þeirri reglugerð sem hér um ræðir og þá þeirri heimild sem Alþingi er hér verið að leggja til að veiti stjórnvöldum er þessari trefjategund polypropylene bætt við samræmda skrá yfir textíltrefjar og skilgreindar samræmdar prófunaraðferðir fyrir trefjategundina, með það að markmiði að fella brott hindranir á eðlilegri starfsemi á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins þar sem ákvæði aðildarríkjanna um heiti, samsetningu og merkingu textílvara hafa hingað til verið breytileg frá einu aðildarríki til annars.

Innleiðing framangreindrar gerðar kallar á lagabreytingar hér á landi og mun fyrirhugað frumvarp innanríkisráðherra til nýrra heildarlaga um textílheiti, textílmerkingar og fleira verða lagt fram á næsta þingi til innleiðingar á ákvæðum reglugerðarinnar. Hvorki er gert ráð fyrir að innleiðing þessarar reglugerðar muni hafa í för með sér umtalsverðar fjárhagslegar né stjórnsýslulegar afleiðingar.

Utanríkismálanefnd leggur til að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt.

Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, formaður og framsögumaður, Helgi Hjörvar, Gunnar Bragi Sveinsson, Ragnheiður E. Árnadóttir og Ólafur Þór Gunnarsson.