141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:21]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Það vill svo til að við vorum í hausatalningu um það bil einum og hálfum tíma fyrir þennan formannafund og þá stóðum við öll í þeirri meiningu að enn væri tækifæri til að semja. Ég og annar þingmaður Hreyfingarinnar, hv. þm. Margrét Tryggvadóttir, sátum við samningaborðið og vorum tilbúnar, ekki búnar að loka neinum dyrum, til að taka þessi tvö atriði.

Ég var einmitt að semja akkúrat á þessum tíma um þröskuldinn, ég var að reyna að ná honum niður í 22%. Við vorum búnar að telja hausa, ég og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, og ætluðum að halda áfram þarna um kvöldið. Svo mæti ég á þennan formannafund og þá er ljóst að það er bara búið að ganga frá öllu. Það hryggir mig mjög því að ég vildi fara í þessa vegferð. Við vorum búnar að telja, það hafði verið rætt við þingmenn Bjartrar framtíðar og þeir ætluðu ekki að standa í vegi fyrir þessu, þeir ætluðu sem sagt ekki að greiða atkvæði gegn því. Þeir ætluðu að greiða atkvæði með breytingartillögunni en sitja hjá, vera í þingsalnum og taka slaginn með okkur. Það var það síðasta sem ég vissi.

Síðan kastaðist í kekki milli einhverra þingmanna meiri hlutans þannig að það hefði verið best að halda fund með öllum þingmönnum sem höfðu einhvern áhuga á að taka þátt í þessu til að það væri ekki verið að bera á milli rangar heimildir og upplýsingar. Það stóð ekki á okkur.