141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[21:42]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Umhverfis- og samgöngunefnd hafði þetta mál til umfjöllunar og fór vel yfir það. Við það komu fjölmargar athugasemdir frá ólíkum sjónarhornum og mikil gagnrýni bæði á efnistök málsins og samráðsleysið sem haft var við vinnslu þess. Samráðsleysi var við ýmsa aðila, bæði útivistarsamtök, jeppamenn, náttúrusamtök og fleiri. Framsóknarmenn telja að þetta mál hefði þurft að vinnast betur. Ákveðnar breytingar hafa orðið á því núna við atkvæðagreiðsluna og eins milli 2. og 3., en við teljum að málið hefði þurft að vinnast betur og vinnast í víðtækari sátt. Við munum því sitja hjá við afgreiðslu málsins bæði nú og við 3. umr. Ástæða þess að það kemur hér til lokaafgreiðslu er einkum og sér í lagi sú að gildistökuákvæði frumvarpsins hefur verið frestað um eitt ár og alveg ljóst er að á því ári þarf að leita víðtækara samráðs hvað þetta mál varðar.