141. löggjafarþing — 113. fundur,  28. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[00:31]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þetta mál má ræða lengi og stutt, ég ætla að tala stutt eins og ég lofaði hér í örlitlu ávarpi um síðustu atkvæðagreiðslu.

Ég las nefndarálit um vatnalög sem var eitt af þeim málum sem stjórnarandstaðan ruddi út af dagskránni. Í því nefndaráliti var fárast mjög yfir því hvað málið væri seint fram komið, hvað umsagnarfresturinn væri fátæklegur og hvað nefndin sem fjallaði um það hefði fengið stuttan tíma til þess og á þeim forsendum var lagt til að málinu yrði, að ég held, vísað til ríkisstjórnarinnar. Síðan í þeim samningum sem hér voru ræddir áðan beittu framsóknarmenn og sjálfstæðismenn sér fyrir því að málinu yrði hent út af dagskránni, það kæmi ekki til greina að hafa það með. Þeir beittu sumsé minnihlutaofbeldi sínu gegn því (Gripið fram í.) að málið færi hér á dagskrá. (Gripið fram í.) Nú er að hlusta. Forseti. Þingmenn tíðka það ekki nógu mikið að hlusta og grípa þess vegna fram í ræður með spurningum. (Gripið fram í.) Um var að ræða vatnalög. Ef hv. þingmaður gæti komið sér í skilning um það að hann lengir ræðu mína með köllum í sal. Ég verð að una við það og hef nokkurn tíma til þess að svara honum ef hann vill halda áfram spurningum sínum.

Svo vill til að um þetta mál gildir nákvæmlega það sama, en þá eru stjórnarandstæðingar ekki jafnákafir og una við það að frestur til umsagna sé ef eitthvað er skemmri en í vatnalögunum, að umfjöllunartími nefndarinnar sé ef eitthvað er þrengri, að málið sé drifið í gegn af miklu meiri krafti en til stóð með vatnalögin. Það skrýtna er að þetta eru sömu nefndarmennirnir. Þetta eru sumsé fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í atvinnuveganefnd.

Það er rétt hjá þeim, þannig að maður taki upp úr vatnalögunum, að þessi mál eru seint fram komin. Tími til að fjalla um þau hefur bæði verið afar knappur og það er skiljanlegt að nefndarmenn hafi farið fram á að vatnalagafrumvarpið færi ekki hér í gegn vegna þess hversu seint það var fram komið.

Í þessu máli var veittur þriggja daga umsagnarfrestur. Þrír dagar voru veittir í umsagnarfrest án nokkurra mótmæla í atvinnuveganefnd hjá þeim hv. þingmönnum sem hér sitja í þeirri nefnd og hlýða á. Umræða í samfélaginu hefur ekki tekist á neitt flug vegna þess tíma sem um er að ræða.

Enn er auðvitað að segja frá því sem margoft hefur verið rakið hér. (Gripið fram í.) Í öðru tilvikinu — ég er að ræða hér um bæði frumvörpin saman. Um er að ræða frumvarp sem er umfram hin frægu lög nr. 99/2010, ívilnunarlögin. Þetta frumvarp skapar sumsé ríkisvaldinu rétt til þess að ívilna einu fyrirtæki umfram önnur. Það er auðvitað viðkvæmt og flókið og hefði þurft að fjalla um það miklu betur en nefndin leyfir sér að gera. Það má meðal annars minna á að hér er stigið það einstæða skref að búa þannig að einu fyrirtæki á landinu að fellt verði niður allt almenna tryggingagjaldið hjá því — 100% niðurfelling á almennu tryggingagjaldi. Um þessi atriði er fjallað í einni af þeim fáu umsögnum sem tími gafst til að veita nefndinni, þ.e. umsögn frá Alþýðusambandi Íslands. Hún er í tvennu lagi. Ég tek fram að Alþýðusambandið styður að ráðist verði í byggingu kísilvers í landi Bakka en gerir alvarlegar athugasemdir við tvö atriði. Annað atriðið er auðvitað ívilnunarlögin sem farið er hér langt fram úr með þeim afleiðingum að ekki ríkir jafnræði milli fyrirtækja. Hitt atriðið er að sjálfsögðu að félagið PCC Bakki Silicon verði undanþegið almennu tryggingagjaldi. ASÍ rekur það í ágætu máli með bakgrunni í þekkingu Alþýðusambandsins á því hvernig almennt tryggingagjald er komið til og hvert það rennur. Það rennur til starfsendurhæfingarsjóðanna, 0,13%, 1,28% renna til Fæðingarorlofssjóðs og samkvæmt sömu lögum eiga 0,325% af gjaldstofni tryggingagjalds að renna til jöfnunar og lækkunar á örorkubyrði lífeyrissjóða. Um það segir ASÍ, með leyfi forseta:

„ASÍ getur ekki fallist að greiðslur til lækkunar og jöfnunar örorkubyrði sé skiptimynt í fjárfestingarsamningum. Hafa verður í huga að eftir því sem minna rennur til jöfnunar- og lækkunar örorkubyrði lífeyrissjóða því lægri verða ellilífeyrisgreiðslur sjóðanna.“

Hvað segir í nefndaráliti atvinnuveganefndar um þetta? Ekkert. Það sem atvinnuveganefnd hefur okkur að segja um þetta eftir rannsókn sína, þá rannsókn sem henni ber skylda til gagnvart öðrum þingmönnum á þinginu að fara í um mál sem hún leyfir sér að taka til sín, er að nefndin hafi hlustað á umræður í þingsalnum, annars vegar fyrirspurn mína til hæstv. fjármálaráðherra og hins vegar það sem hæstv. atvinnuvegaráðherra sagði, að þetta yrði allt í lagi. Hvernig verður það allt í lagi, forseti? Eru einhverjar skýringar á því? Ætlar ríkið að borga sjálft og hvaðan og með hvaða heimildum í fjárlögum í starfsendurhæfingarsjóðinn, í Fæðingarorlofssjóð og til sjálfs sín til þess að jafna og lækka örorkubyrði lífeyrissjóða? Hvernig á að búa um þetta? Nefndin segir okkur ekkert frá því. ASÍ fær ekkert svar við kvörtun sinni í þessu efni.

Menn geta svo lesið það sem Alþýðusambandið segir um ívilnunarlögin sem er síst skárra og vitnar þar í athugasemdirnar um lögin þar sem hin fögru loforð eru veitt sem stóðu á bak við þessi lög sem ég studdi heils hugar þó að ég væri ekki kominn á þing þá og vitnaði sérstaklega til þarfarinnar á þessum lögum þegar ég og hv. þingmaður, sem þá var Steingrímur J. Sigfússon, núverandi hæstv. atvinnuvegaráðherra, lögðumst gegn sérstakri ívilnun til fyrrverandi fyrirhugaðs álvers í Helguvík á þeim forsendum einmitt að þessar ívilnanir ætti að gefa á almennan hátt innan ákveðins lagaramma. Aðeins þremur árum eftir að ríkisstjórninni tókst, hinni ágætu vinstrigrænu-samfylkingarríkisstjórn, að setja þessi góðu lög þarf að bregða frá þeim og sprengja þau í loft upp, um leið og breytingar á þeim eru til umfjöllunar á Alþingi Íslendinga. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð, forseti, þau eru það ekki, því miður. Það er leitt að þurfa að segja það. Hér stendur samfylkingarmaður og talar svona um sína eigin ríkisstjórn og um eigin félaga í atvinnuveganefndinni góðu sem sitja fyrir framan hann. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð.

Það verður auðvitað að segja líka að ástæða hefði verið til að afgreiða ekki þetta frumvarp og láta það bíða. Fram undan eru, forseti, tvö þing. Það verður þing hér í sumar eftir kosningar þar sem við í hinum nýja meiri hluta ráðum ráðum okkar að loknum alþingiskosningum. Það verður líka þing í haust, hefst í september. Á báðum þessum þingum er nægur tími til að afgreiða mál af þessu tagi sem yrðu betur könnuð, betur undirbúin, betur úr garði gerð og væru ekki síst byggð á því sem vantar enn til þess að fylla í þá mynd sem þingmenn í atvinnuveganefnd og aðrir þingmenn þurfa að hafa til að taka afstöðu til málsins. Mati á umhverfisáhrifum er meðal annars ekki lokið á þessum framkvæmdum. Eftirlitsstofnun EFTA hefur ekki kveðið upp sinn úrskurð um málið. Hvað segir hæstv. atvinnuvegaráðherra um það? Hvað segir atvinnuveganefnd um það? Hún veit fyrir fram að Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, á eftir að kveða upp jákvæðan úrskurð um þetta mál. Það er ágætt. Þá þarf ekki að hafa hér Íslandsmót í knattspyrnu eða formúlukeppni því að atvinnuveganefnd veit fyrir fram hvernig fer. Er ekki hægt að leggja Eftirlitsstofnun EFTA bara niður og hafa atvinnuveganefnd Alþingis í staðinn með hv. þingmönnum sem hér sitja fyrir framan mig þannig að þeir segi til um það hvernig hlutirnir fara í ýmsum kappleikjum og úrskurðum og annars staðar þar sem menn þurfa að koma saman og leggja mat sitt á hlutina?

Forseti. Það er ósköp einfaldlega þannig að betra hefði verið, eins og áður hefur verið gert eða að minnsta kosti farið fram á af sömu mönnum og nú telja þetta í góðu lagi, að bíða eftir úrskurði og áliti Eftirlitsstofnunar EFTA í þessu máli.

Alvarlegra er kannski nákvæmlega það atriði að enn hefur ekki verið tryggð orka til framhaldsuppbyggingar á þessu svæði þó að orka liggi fyrir á einhverju leyti til verkefnisins „eitthvað annað“ sem þingmaður Vinstri grænna talaði hér um áðan. Við vitum ekkert um orku til framhaldsuppbyggingar á þessu fyrirhugaða iðnaðarsvæði við Húsavík sem er þó forsenda þessa máls því að það er kynnt þannig að það sé aðeins fyrsta skrefið af mörgum. Ég tek undir þá drauma. Þeir eru eðlilegir og þær væntingar ef draumarnir eru raunsæir en þá verða þeir að vera raunsæir, ekki bara raunsæir í þeim skilningi að hægt sé að semja við fyrirtækin og jafnvel fá orkuna heldur líka raunsæir í þeim skilningi að sú orka sem fæst standist þau skilyrði sem við gerum [Kliður í hliðarsal.] á 21. öldinni á Íslandi til umhverfismats — forseti, klukkan er orðin svo margt að svona hávaði í hliðarherbergjum truflar mann í stuttri ræðu — og þær umhverfiskröfur sem við gerum til orkuöflunar.

Þá er ljóst að atvinnuveganefnd hefur einhvern veginn ekki áttað sig á því hvernig fyrirkomulag á að vera á því framlagi frá ríkinu sem hér er um að ræða, 3,4 milljarðar alls. Þetta er ekki í þeim fjárlögum sem við búum við núna. Á að búa til þessa peninga í fjáraukalögum eða koma þeir í næstu fjárlögum? Hvað þýða þessir peningar fyrir hallann á ríkissjóði fyrir rammafjárlög og fyrir þá stefnu sem menn hafa sett hér í framtíðinni? Það er ekki ljóst og hefur ekki komið fram í ræðum eða nefndarálitum í kringum þetta mál. En það er ljóst að í greinargerð málsins og ekki síst í umsögnum fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að í þessum ívilnunar- og framlagsáformum sem hér eru á ferðinni felst mikil fjárhagsleg áhætta. Það kann að vera að menn vilji leggja í hana en það er engin grein gerð fyrir henni. Hinar frómu óskir koma út atvinnuveganefnd, sömu frómu óskir og koma frá hæstv. atvinnuvegaráðherra í þessu efni, og það er látið nægja. Svo koma sömu menn og hafa uppi mikla tilburði þegar önnur mál eru á ferðinni, krefjast mikillar nákvæmni um aðra hluti, bæði stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar í þessari nefnd.

Mann grunar að þær ívilnanir sem hér eru veittar og það framlag sem hér er lofað af hálfu ríkisins sé í raun og veru enn einn kaflinn í þeirri sögu sem Andri Snær Magnason minnti okkur ágætlega á þegar hann rifjaði upp bæklinginn Lowest energy prices í þeirri stóriðjusögu Íslendinga að við höfum reynt að kaupa okkur atvinnu og viðskipti við stóriðjufyrirtækin með því að bjóða niður orkuna. Nú vill til að Landsvirkjun er hætt þessu. Landsvirkjun hefur ákveðið undir nýrri forustu að stunda eðlileg viðskipti með orku, fá fullt verð þar sem hægt er fyrir orkuna. Þá bregður svo við að ríkisvaldið með þeirri birtingarmynd sem ég hef hér talað um fer að ívilna, fer að leggja fram fé í staðinn. Spurningin er hvort atvinnuveganefnd hefði ekki átt einmitt að spekúlera í þessu og spyrja sérfræðinga um þetta mál. Er það svo að vegna þessa, að Landsvirkjun er farin að haga sér eins og alvörufyrirtæki, sem ég fagna, og krefjast þess að borgað sé raunvirði fyrir orkuna, þurfi ríkisvaldið að bakka í staðinn og sjá með öðrum hætti um að Lowest energy prices sé áfram slagorðið og einkunnarorðið fyrir stóriðjusamvinnu við útlend fyrirtæki?

Ég held að ég verði líka að nefna hér á síðustu sekúndunum það að fréttaramminn í kringum þetta mál er því ekki mjög hagstæður. Hann mótast af því að við höfum annars vegar fengið fréttir af fjárhagslegum búningi stóriðjufyrirtækja hér á landi að undanförnu og hins vegar fengið fréttir af ástandi Lagarfljóts og afleiðingum Kárahnjúkavirkjunar.

Ég verð að segja að lokum og taka undir með hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni sem sagði hér í (Forseti hringir.) hólræðu um þetta verkefni að lokum að það væri þó, með leyfi forseta, „dýru verði keypt“. Ég hyggst ekki styðja þetta mál í atkvæðagreiðslu til 3. umr. frekar en í atkvæðagreiðslu eftir 2. umr.