142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum, nr. 146/2012. Með 2. gr. þeirra laga voru gerðar breytingar á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem varða gistiþjónustu. Með ákvæðinu var nánar tiltekið gerð sú breyting að útleiga hótel- og gistiherbergja og önnur gistiþjónusta var felld í nýtt 14% skattþrep í virðisaukaskatti. Breytingin mun að óbreyttum lögum taka gildi 1. september 2013.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks kemur fram að falla eigi frá áformum fyrri ríkisstjórnar um þessa hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu.  

Með frumvarpi þessu er lagt til að sú breyting að hækka virðisaukaskatt á gistiþjónustu frá og með 1. september 2013 nk. öðlist ekki gildi og að virðisaukaskattsskylda vegna útleigu hótel- og gistiherbergja og annarrar gistiþjónustu verði áfram í 7% skattþrepi.

Margvísleg rök mæla með því að ráðast í þá lagabreytingu sem lögð er til með frumvarpinu. Þannig hefur verið bent á að fjölgun skattþrepa í virðisaukaskatti flæki skattkerfið og feli í sér aukinn kostnað bæði fyrir atvinnulífið og hið opinbera. Aðilar sem stunda gististarfsemi eru rúmlega 600 talsins og ekki er talið réttlætanlegt að ráðast í fjölgun skattþrepa fyrir eina atvinnugrein.

Þá má einnig ætla að lægri virðisaukaskattur á gistiþjónustu hafi áhrif á eftirspurn og muni þannig gagnast ferðaþjónustunni við markaðsstarf sitt. Hagstofan tekur saman upplýsingar um fjölda ferðamanna og gistinátta og samkvæmt þeirra gögnum hefur heimsóknum erlendra ferðamanna til Íslands fjölgað um helming frá árinu 2000. Á árinu 2012 voru erlendir ferðamenn orðnir um 673 þús. talsins og hafði þá fjölgað um tæp 19% frá árinu áður en þá voru þeir um 565 þús. talsins.  

Gistinóttum á hótelum hefur að sama skapi fjölgað og fyrstu fjóra mánuði ársins 2013 voru gistinætur rúmlega 527 þús., samanborið við tæplega 430 þús. fyrir sama tímabil árið áður. Við þetta má bæta að gistinóttum erlendra gesta fjölgaði um 26% á fyrsta ársþriðjungi þessa árs samanborið við árið á undan.

Verði frumvarpið að lögum er áætlað að tekjur ríkissjóðs verði að óbreyttu rúmlega 500 millj. kr. lægri en gert var ráð fyrir í áætlun fjárlaga árið 2013. Á heilu ári eru tekjuáhrifin talin vera um 1,5 milljarðar kr. Á móti því tekjutapi vegur þó aukin eftirspurn og viðbótartekjur til lengri tíma litið.

Virðulegi forseti. Ég hef látið hjá líða að nefna aðdraganda þess að virðisaukaskatturinn var hækkaður. Málið fékk á sínum tíma töluvert mikla umfjöllun í þinginu og það voru gerðar breytingar á áformum ríkisstjórnarinnar með þeim hætti að gildistöku frumvarpsins var frestað. Með því var að nokkru komið til móts við athugasemdir sem borist höfðu frá ferðaþjónustuaðilum. Það breytir því þó ekki að við teljum að ákvörðunin sem slík um hækkun virðisaukaskattsins hafi ekki verið góð og því er hér lagt til að hún verði dregin til baka og lögin komi aldrei til framkvæmda.

Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.