142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[15:42]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum, virðisaukaskattur á ferðaþjónustu, og er þetta þingmál nr. 1 á því þingi sem er nýhafið.

Virðulegur forseti. Ég sakna þess að hæstv. fjármálaráðherra sé ekki í þingsalnum í þessari umræðu og raunar sakna ég þess líka að hæstv. ráðherra ferðaþjónustu, sem ég hygg að sé hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, skuli ekki vera viðstaddur umræðuna vegna þess að hún snýst ekki bara um skattamálefni einangrað heldur um rekstrarumhverfi þeirrar atvinnugreinar sem hér er undir.

Ég vek líka athygli á því að ríkisstjórnin hefur sinn feril með því að hafa þetta þingmál fyrsta mál sem hún leggur fram á þessu þingi, mál nr. 1 og fyrsta mál á dagskrá. Menn gætu velt því fyrir sér hvað er þá orðið um öll stóru orðin fyrir kosningar um forgangsmálin á því kjörtímabili sem nú er nýhafið þegar þetta er fyrsta málið sem er á dagskrá. En látum það liggja milli hluta.

Ég tel að mikilvægt sé að málið sé rætt í heildarsamhengi hlutanna og í því efni vil ég leyfa mér að taka undir það sem fram kom í ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar fyrr í þessari umræðu þar sem hann gerði að umtalsefni tilgang skattheimtunnar almennt og mikilvægi hennar til að byggja undir grunnstoðir í okkar samfélagi, velferðarþjónustuna, heilbrigðiskerfið, skólana o.s.frv. Það er nefnilega þannig að enda þótt þær fjárhæðir sem um er að ræða í þessu frumvarpi sem ríkissjóður verður af, verði frumvarpið að lögum, séu kannski ekki ýkja stórar í samhenginu heildartekjur ríkissjóðs munar um þær engu að síður, safnast þegar saman kemur. Mikilvægt er að við horfum á það í samhengi við stöðu ríkisfjármála.

Það vekur athygli að hæstv. fjármálaráðherra hefur í máli sínu hér og í svörum við andsvörum haft uppi orð um að stjórnarandstaðan hafi verið með kröfur um mótvægisráðstafanir í þessu máli en það sé ekki sérstök þörf á því vegna þess að þetta sé lítið brot af tekjum ríkissjóðs og því verði mætt í ríkisfjármálaáætlun sem verði lögð fram samhliða fjárlagafrumvarpi í haust. Engu að síður er það svo að í þingskjalinu sjálfu, í fylgiskjali frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, skrifstofu opinberra fjármála, er sérstaklega kallað eftir sérstökum mótvægisráðstöfunum vegna þessa þingmáls, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Verður því að gera ráð fyrir að afkoman versni í sama mæli og þar með að sama eigi við um framgang markmiðs um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs ef ekki verða gerðar viðeigandi ráðstafanir til mótvægis.“

Ég tel mikilvægt að halda því til haga að það hefði þá verið eðlilegt í framhaldi af því sem ráðuneytið sjálft setur frá sér í tilefni af þessu frumvarpi að kynnt væri með hvaða hætti tekjuskerðingu ríkissjóðs væri mætt, annaðhvort með öðrum tekjum eða með niðurskurði.

Ég vil leyfa mér í þessari umræðu að vitna nokkuð í skýrslu Hagfræðistofnunar háskólans frá september 2012 um áhrif þess að hækka virðisaukaskatt á gistiþjónustu og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hefur þegar vakið máls á. Rétt er að ítreka að þegar sú skýrsla var unnin var miðað við þau áform sem þá voru uppi um að hækka virðisaukaskattinn úr 7% í 25,5%. Niðurstaða Alþingis varð eins og kunnugt er að hækka hann í 14% þannig að það verður að taka þær tölulegu upplýsingar sem koma fram hér með hliðsjón af þeirri staðreynd.

Sérstaklega vekur það athygli mína sem kemur fram í niðurstöðum þeirrar skýrslu á bls. 5. Þar segir, með leyfi forseta:

„Virðisaukaskattur á gistingu lækkaði úr 14% í 7% í mars 2007. Greining á þróun verðs á gistingu bendir til þess að mestur hluti þeirrar lækkunar hafi fallið gistihúsum í skaut, en verð á gistingu lítt lækkað. Því má líta á lækkunina sem niðurgreiðslur eða styrk til atvinnugreinarinnar.“

Þetta þýðir að ferðaþjónustan hefur í raun verið að selja gistinguna allt frá þessum tíma eins og hún bæri 14% virðisaukaskatt. Þær fjárhæðir sem munurinn á 7% og 14% virðisaukaskatti hefðu skilað og hefðu í raun átt að leiða til lækkunar á verði til kaupandans, kaupanda gistingarinnar, rann til atvinnugreinarinnar sjálfrar. Því má gagnálykta og spyrja hvort hækkun á virðisaukaskattinum nú, eins og áformað hefur verið, úr 7% í 14% hefði þurft að hafa í för með sér hækkun á verði til ferðamanna úr því að ferðaþjónustan hefur verið að reka sig allan þennan tíma í raun með tekjur eins og skatturinn væri 14% eða verðlagningu eins og skatturinn væri 14%.

Ég dreg það stórlega í efa að áhrifin þar af leiðandi af þeim áformum sem eru í gildi í dag, að óbreyttum lögum um 14% skatt í haust — ég dreg það stórlega í efa að afleiðingar þess verði hækkun á gistingu. Að minnsta kosti bendir skýrslan ótvírætt til þess að nú þegar sé það svigrúm til staðar hjá atvinnugreininni til að taka við þessum hækkaða skatti. Þá hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort ávinningurinn af þessari fyrirhuguðu lagabreytingu sé ekki býsna lítill, hvort menn séu ekki að gefa eftir hér mikilvægar skatttekjur í ríkissjóð upp á 1,5 milljarða á ársgrundvelli fyrir lítinn ávinning.

Það kemur líka fram í skýrslunni á öðrum stað — og þar reyna skýrsluhöfundar að meta hvaða áhrif það hefur á fjölda gistinátta að teknu tilliti til og út frá hagfræðimódelum um verðteygni og tekjuteygni í þessum geira — að gert er ráð fyrir því að komum og gistinóttum erlendra ferðamanna muni fækka um 0,6–1,1% á ársgrundvelli ef skatturinn á gistinguna verður hækkaður, eins og var gert ráð fyrir í forsendum skýrslunnar, úr 7% í 25,5%. Að teknu tilliti til þeirrar staðreyndar að áformin voru þá ekki um að hækka nema í 14% en ekki í 25,5 ættu áhrifin að verða þeim mun minni, þ.e. kannski um 0,5% í fjölda erlendra ferðamanna.

Herra forseti. Þess vegna segi ég það hiklaust að ég tel að hér séu menn að fórna mjög miklum hagsmunum ríkissjóðs fyrir lítinn ávinning fyrir greinina í heild. Þetta tel ég að sé mikilvægt innlegg í þessa umræðu og hv. þingnefnd, sem væntanlega verður efnahags- og viðskiptanefnd, hljóti að taka til sérstakrar skoðunar í tengslum við umfjöllun hennar um málið. Ég mundi leggja áherslu á það að nefndin kynnti sér skýrsluna frá Hagfræðistofnun frá því í september 2012.

Ég vil líka koma inn á atriði sem ýmsir fleiri hafa vakið máls á í þessari umræðu og það lýtur auðvitað að skipulagi ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar almennt og hvaða framtíðarsýn við höfum í tengslum við hana. Hér hafa verið raktar upplýsingar um fjölgun ferðamanna undanfarin ár. Það kemur meðal annars fram í greinargerð með þessu frumvarpi og kemur fram í umræddri skýrslu og nokkrir hv. þingmenn hafa vakið máls á því að vöxtur þessarar greinar hafi verið mikill, aukning á hingaðkomum erlendra ferðamanna hafi verið mikil undanfarinn einn og hálfan áratug í raun. Við hljótum að velta því fyrir okkur hvað við getum tekið á móti mörgum ferðamönnum, hvað við höfum innviði til þess að taka við mörgum ferðamönnum ár hvert og hvort aukningin getur verið takmarkalaus hvað þetta snertir.

Ég held að það sé mikilvægt varðandi ferðaþjónustuna eins og aðrar atvinnugreinar að við horfum af ábyrgð á auðlindanýtinguna vegna þess að að sjálfsögðu erum við að nýta auðlind. Íslensk náttúra og íslensk menning, sem eru mikilvægar stoðir í ferðaþjónustunni, eru auðvitað auðlindir sem við þurfum að nýta með hófsömum hætti. Það hefur mikið verið kallað eftir því að bætt sé úr aðbúnaði á fjölförnum ferðamannastöðum og náttúruperlum vítt og breitt um landið. Ég held að þingheimur geti allur verið sammála um það að mikið er óunnið. Enda þótt við höfum staðið ágætlega að verki mörg undanfarin ár hvað það snertir er enn mikið óunnið í því efni að bæta aðstæður á ferðamannastöðum til þess að þeir séu í stakk búnir til að taka við fleiri ferðamönnum.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði í ræðu sinni hér að eitt af því sem ríkisstjórnin hygðist gera á næstunni væri að endurskoða og jafnvel taka úr sambandi fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar. Í þeirri fjárfestingaráætlun voru, ef ég man rétt, um 750 millj. kr. til uppbyggingar ferðamannastaða. Það eru ekki litlir fjármunir sem hefðu farið í uppbyggingu á fjölförnum ferðamannastöðum og náttúruperlum um allt land. Ég hlýt að velta því upp að fari þeir fjármunir út úr þessu dæmi, ef ríkisstjórnin ætlar sem sagt að taka fjárfestingaráætlunina og leggja hana til hliðar eða afnema hana, höfum við heldur ekki þá fjármuni til uppbyggingar í ferðaþjónustu. Þá verða okkar fjölförnu ferðamannastaðir verr undir það búnir að taka við enn auknum fjölda ferðamanna, það segir sig sjálft. Það er þetta samhengi hlutanna sem mér finnst að við verðum að ræða málið í.

Það er auðvitað mjög einfalt að koma og segja: Við ætlum að lækka skatta og einfalda skattkerfið og þess vegna viljum við ekki þennan 14% virðisaukaskatt á gistingu og fara með hann niður í 7% og þetta eru litlar upphæðir í samhengi við heildartekjur ríkissjóðs, það er einfalt að segja það. Samhengið er engu að síður stærra, það er stærra í samhengi við tekjuöflun ríkissjóðs almennt og hvernig við stöndum undir okkar samfélagsþjónustu og það er stærra að því er varðar skipulag ferðaþjónustunnar sérstaklega og auðlindanýtinguna þar og uppbyggingu á fjölförnum ferðamannastöðum.

Mér finnst því þýðingarmikið að við ræðum þetta mál einnig út frá þeim þáttum. Það er alveg bersýnilegt og hlýtur að vera hverjum manni ljóst, eins og kemur fram í þessu þingmáli og í framsöguræðu hæstv. ráðherra, að tilgangurinn sé að bæta samkeppnisstöðu ferðaþjónustunnar þannig að hingað komi fleiri erlendir ferðamenn sem væntanlega mundu skilja eftir sig eitthvað meiri tekjur í íslensku samfélagi. En um leið er verið að segja að það eigi að kippa burt mikilvægum fjármunum til uppbyggingar ferðamannastaða til að taka við þeim aukna fjölda ferðamanna. Sú röksemdafærsla finnst mér ekki ganga alveg upp, mér finnst hún fara í hring. Ég tel þess vegna að bæði í umræðunni um þetta mál hér og eins í vinnu hv. efnahags- og viðskiptanefndar verði að taka það samhengi til skoðunar. Ég er ekki sannfærður um, eins og ég sagði fyrr í ræðu minni, virðulegur forseti, að þessi vegferð sé til góðs þegar á heildina er litið. Ég óttast að hér sé verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni og þess vegna er ég ekki mjög hrifinn af frumvarpinu. Enda þótt auðvelt sé, (Forseti hringir.) eins og ég sagði áðan, að segja að ákjósanlegt sé að lækka skatta, til skamms tíma litið eða í mjög þröngum skilningi hugsanlega já, en í heildarsamhenginu virðist mér það (Forseti hringir.) ekki vera í þessu máli.