142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[17:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þau ummæli voru ekki rædd í ríkisstjórn en hins vegar get ég sagt hv. þingmanni að aðgerðin var umdeild á sínum tíma í ríkisstjórninni. Það vissi hv. þingmaður mætavel.

Svarið við fyrri spurningu hv. þingmanns um hvort afnám skatta feli alltaf í sér tekjufall: Oftast, ekki alltaf. En sá góði drengur sem situr mér hér til vinstri handar hefur t.d. nýlega útskýrt að slíkar breytingar leiði samkvæmt hans mati hugsanlega ekki til neins ávinnings fyrr en tiltölulega löngu síðar. Ég leyfi mér meira að segja að vera sammála þeirri skoðun nema í örfáum tilvikum. Ég tel að hægt sé að benda á skatta sem leiði til þess tiltölulega hratt að atvinnulíf glæðist ef þeir eru numdir af, en um þær skattbreytingar held ég að allir sem sitja á Alþingi séu sammála í dag.

Að öðru leyti er ég þeirrar skoðunar að eins og staðan er núna sé það heldur umhendis að ráðast í skattalækkanir. Ég tek undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni frá því síðar í dag að ég vil heldur borga þá skatta sem ég greiði núna ef það tryggir mér ókeypis heilbrigðisþjónustu, ókeypis menntun dætra minna o.s.frv., ef það tryggir mér velferðarkerfi, en að lækka þá. Ég óttast að þær hástemmdu yfirlýsingar sem hæstv. fjármálaráðherra gaf í því sem ég kallaði dýrustu ræðu Íslandssögunnar sem var landsfundarræða hans sé ekki hægt að standa við öðruvísi en að einkavæða heilbrigðiskerfið, eins og mér fannst reyndar liggja í þeirri ræðu líka.

Um skattaáþján síðustu ríkisstjórnar hef ég þetta að segja. Þá skatta sem við hækkuðum, eins og t.d. fjármagnstekjuskattinn, hækkuðum við minna en t.d. ríkisstjórn íhaldsmanna í Bretlandi. Við hækkuðum einnig skatta með þeim hætti að við erum um miðjan skattstiga OECD. Það er ekki hægt að kalla þrældóm, er það? (Forseti hringir.) Ég veit að hv. þingmaður er mér algerlega sammála um það (Forseti hringir.) eins og svo margt annað í hjarta sínu.