142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[20:41]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hæstv. ráðherra um mikilvægi þess að það sé trúverðugt sem frá okkur kemur. En þetta síðasta svar hans var nú bara svolítið eins og við værum að fara í andaglas. Hann sagði að það sem héðan kæmi yrði auðvitað að vera í samræmi við áætlun sem enginn veit hins vegar hvernig er. Þannig að stjórnarandstaðan hefur engin tök á því að halda ríkisstjórninni við efnið um það hvort hún er að vinna í samræmi við áætlunina eða ekki og það erum ekki bara við sem komum af fjöllum. Alþjóðlegir greiningaraðilar koma líka af fjöllum. Menn hafa ekki átt því að venjast að hafa svona lausatök í ríkisfjármálum frá hruni, að menn byrji á því að veikja tekjuöflunina, grunn ríkissjóðs, áður en þeir gera grein fyrir því hvernig hið stærra markmið um efnahagslegan stöðugleika og jöfnuð í ríkisfjármálum eigi að nást.

Þetta er nýlunda. Þetta er fráhvarf frá því sem við höfum tileinkað okkur frá hruni og fráhvarf frá þeirri þjóðarsamstöðu sem varð um jöfnuð í ríkisfjármálum sem höfuðmarkmið efnahagsstefnunnar eftir hrun. Það er þetta sem mér finnst svo alvarlegt. Mér finnst bara ekkert í lagi að hæstv. fjármálaráðherra haldi því út af fyrir sig hvernig eigi að fara með jöfnuð í ríkisfjármálum. Mér finnst ekki í lagi að hæstv. forsætisráðherra svari út í hött eins og hann gerði í dag og mér finnst ekki heldur í lagi að einstakir ráðherrar tali síðan í allt aðrar áttir um enn frekari útgjaldaaukningu. Það bendir til þess að það sé bara ekkert plan, menn séu bara að prjóna, hver með sínu sniði, eftir því sem þeim dettur í hug. Það kann ekki góðri lukku að stýra.

Við höfðum skýrt leiðarplan til að vinna eftir á síðasta kjörtímabili og það var byggt á þjóðarsamstöðunni sem hafði verið lögð í AGS-planinu. Þetta er grundvallaratriði fyrir árangur. Ég hvet ríkisstjórnina til að hysja upp um sig og koma frá sér alvöruáætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum.