142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég óska hv. þm. Frosta Sigurjónssyni til hamingju með jómfrúrræðu sína og hlakka til að halda áfram umræðum við hann um skuldamálin á morgun. En ég fagna sérstaklega yfirlýsingu formanns fjárlaganefndar um að ríkisstjórnin hafi tíma til haustsins til að koma hér inn með tilbúin frumvörp varðandi skuldamálin og verðtrygginguna. Ég hafði nefnilega áhyggjur af því að nefndin á ekki að skila af sér fyrr en í nóvember og að við fengjum þess vegna ekki mál inn fyrr en á næsta ári. Ég held að við hljótum öll að vera sammála um að það er allt of langt að fresta málunum til 2014 þannig að ég fagna því að formaður fjárlaganefndar hafi sett þau tímamörk (VigH: Það er haustþing.) að málin ættu að vera komin í þingið í haust. (VigH: Það er haustþing.)

Ég er hins vegar ekki jafn ánægður með þær yfirlýsingar sem komu frá hv. þingmönnum Ragnheiði Ríkharðsdóttur, Unni Brá Konráðsdóttur og Höskuldi Þórhallssyni. (Gripið fram í.) Mér finnst ekki ástæða fyrir stjórnarandstöðuþingmenn að gagnrýna allt. Mér finnst heldur ekki ástæða fyrir stjórnarþingmenn að verja allt. Það hversu dregið hefur úr áherslunni á umhverfismál á að vera okkur umhugsunarefni. Okkur hefði aldrei dottið í hug að fara svona með fjármálaráðuneytið, að láta það bara dingla sem aukaráðuneyti hjá einhverjum. Ef okkur finnst að umhverfismál séu jafn mikilvæg og fjármál þá eigum við að fara eins með þau.

Sama er með hlut kvenna. Auðvitað er hlutur kvenna í ríkisstjórn Íslands nú áhyggjuefni því að hann er langtum lakari en hann var í síðustu ríkisstjórn. Það er aðeins eitt óskipt ráðuneyti sem kemur í hlut kvenna og það sem gerðist í þinginu eykur bara þá áherslu. Við eigum að hafa það sem umhugsunarefni og við eigum líka að gera það í stjórnarandstöðunni. Við skipuðum einu sinni bara karlmenn í fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili í Samfylkingunni en við hlupum til og við löguðum það. Ég held að við þurfum að ræða þá hluti og reyna að vinda ofan af þeim mistökum hratt og vel sem menn gera og það gildir líka um nefndaskipunina á Alþingi. Við höfum rætt það, þingflokksformenn, og ég vona að mönnum takist að laga eitthvað (Forseti hringir.) kynjahallann í nefndum þingsins (Forseti hringir.) nú þegar á sumarþinginu. (Forseti hringir.) Mér finnst enginn bragur á öðru.