142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

áherslur nýrrar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum.

[14:51]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það var nú ekki svo í kosningabaráttunni eða fyrir hana að við hefðum mestar áhyggjur af stöðu ríkisfjármála, við vissum hvernig staðan var. Við höfðum mestar áhyggjur af loforðaflaumnum sem stjórnarflokkarnir báru á borð fyrir þjóðina til að upplýsa hv. formann fjárlaganefndar um það.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur rætt um að ríkissjóður sé í miklum vanda og mun meiri en fyrri ríkisstjórn hafði gefið til kynna. Á sama tíma boðar ráðherrann skattalækkanir og kemur um leið í veg fyrir auknar tekjur ríkissjóðs. Í umræðu undanfarinna daga hefur það sætt furðu að fyrstu mál þessarar ríkisstjórn skuli vera að falla frá virðisaukaskatti á hótel- og gistiþjónustu og lækkun á veiðigjöldum. Skuldamál heimilanna verða að bíða til haustsins þegar umræða um fjárlög stendur sem hæst, þau koma væntanlega inn í fjáraukalagafrumvarpið sem hv. formaður fjárlaganefndar var hér að gagnrýna, sagði að það væri alla jafna of feitt.

Það hefur líka komið fram frá fjármálaráðuneytinu að það geri ráð fyrir tekjutapi upp á 500 milljónir í ár og um 1.500 milljónir á næsta ári og áfram miðað við að gistirými verði sambærilegt og verið hefur, sem er fremur ólíklegt því að það sýnir sig nú strax að það stefnir allt í mikla aukningu. Það er því með ólíkindum að hægri stjórnin sjái ástæðu til að innheimta ekki skatta af ört vaxandi ferðaþjónustu. Greinin er þó langt undir samanburðarlöndum þegar kemur að skattheimtu.

Á síðasta þingi ræddu þingmenn meðal annars um stöðu löggæslunnar á Íslandi. Ég man ekki betur en allir væru sammála um að í hana þyrfti aukið fjármagn. Helmingnum af þeirri fjárþörf er hæstv. fjármálaráðherra að afsala ríkissjóði með því að ívilna ferðaþjónustunni eða fylgja ekki eftir frumvarpinu sem hér lá fyrir. Hann segir að það sé til þess að gera greinina samkeppnisfærari. Því er ég bara ekki sammála. Fyrir þessar 1.500 milljónir væri meðal annars hægt að reka eins og tvær heilbrigðisstofnanir úti á landi.

Sama má segja um veiðigjaldið sem var til umfjöllunar í síðustu viku og verður áfram haldið, en því hefur verið haldið fram að vegna þess geti útgerðin ekki fjárfest eða sinnt viðhaldi. Það stenst enga skoðun, því að samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni var EBITDA í sjávarútveginum á árinu 2012 um 80 milljarðar og þegar áætlað veiðigjald hefur verið dregið frá í kringum 65 milljarðar, sem er þó meira en nokkru sinni fyrr.

Þegar við fjöllum um verri afkomu ríkissjóðs á sama tíma og hægri stjórnin lætur það eftir sér að ívilna útgerðinni á kostnað þeirra stofnana sem eru afar fjárþurfi er ekki nema von að spurt sé: Hvar á að bera niður? Hvar ætlar ríkisstjórnin að skera niður?

Virðulegi forseti. Það hefur verið sagt um vinstri stjórnina að hún hafi lagt á endalausa skatta. Það leggur enginn á skatta bara til að leggja á skatta. Þeim er ætlað að afla tekna fyrir ríkissjóð til að greiða fyrir jafnræði til búsetu, velferðarkerfið, heilbrigðis- og menntakerfið, löggæsluna og allt það sem við töluðum öll um í kosningabaráttunni. Eða verður það þannig að aðgengi verður háð efnahag?

Við Íslendingar höfum flest verið tilbúin til að greiða skattana okkar vitandi að þeir fari í sameiginlega sjóði og þegar kemur að því að við þurfum að nota þjónustuna er hún til staðar fyrir okkur án mikils tilkostnaðar. Það lá fyrir eftir hrunið 2008 að ríkissjóður var á barmi gjaldþrots og tekjustofnarnir veikir. Það lá því fyrir að grípa þyrfti til róttækra aðgerða til að halda velferðarkerfinu á floti og rétta ríkissjóð af hægt og bítandi. Það hefur tekist.

Margar sársaukafullar ákvarðanir voru teknar sem allir fundu fyrir með einum eða öðrum hætti, en velferðarkerfinu var hlíft eins og kostur var. Nú er stigið skref til baka. Ný áhersla hjá nýrri ríkisstjórn. Ráðherrum fjölgað, stjórnsýslunni skipt upp aftur með tilheyrandi kostnaði. Þeim fjármunum væri að mínu viti betur varið í þau mál sem ég hef hér upp talið, að ekki sé nú talað um að lækka vaxtakostnað ríkissjóðs.

Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum að áherslan skuli vera á þá sem eru vel aflögufærir. Eins og undirskriftir sem nú eru í gangi benda til er þjóðin sammála því að borga skuli auðlindagjald af fiskinum í sjónum. Að endurskoða þurfi forsendur eru eitt, að fella niður er annað. Að flytja byrðarnar af þeim sem eru vel aflögufærir yfir á þá sem síst skyldi er hins vegar óásættanlegt. Hér talar hæstv. ráðherra eingöngu um að ástandið sé ekki gott í ríkisfjármálunum, en á sama tíma eru engar lausnir heldur allt í nefndir.

Þegar fjármál ríkisins eru með þeim hætti sem hér hefur komið fram í dag, fyrst og fremst vegna stefnu hægri flokkanna fyrr á árum, hefur maður af því áhyggjur að allt stefni í sömu átt með þeim tillögum sem hafa komið hér á þessu sumarþingi. Þetta kallar hæstv. forsætisráðherra skynsemisstjórn. Sér er nú hver skynsemin. Það er í það minnsta ekki það sem ég lærði í skóla að henda frá mér hugsanlegum tekjum ef ég væri nú þegar of skuldsett. Við þurfum á þessum tekjum að halda til að byggja upp sameiginlega velferð okkar allra.