142. löggjafarþing — 8. fundur,  19. júní 2013.

boðun nefndarfundar.

[15:05]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að óska íslenskum konum til hamingju með kvenréttindadaginn.

Tilefni þessi að ég kem hér upp er að ég vil undirstrika mikilvægi þess að boðað sé til funda í nefndum þingsins með eðlilegum fyrirvara. Í gær var boðað til fundar í atvinnuveganefnd með mjög skömmum fyrirvara og á óhefðbundnum fundartíma. Ég sem 1. varaformaður nefndarinnar fékk skilaboð með mjög stuttum fyrirvara og var nýkomin hér úr þinghúsi.

Ég vil undirstrika það að við byrjum þetta þing vel, að við reynum að vanda vinnubrögð okkar við að boða til funda og ná til allra nefndarmanna með eðlilegum hætti. Þegar svona stuttur fyrirvari er á, sem af eðlilegum ástæðum getur alltaf þurft að vera, er mikilvægt að menn gleymi sér ekki í hita leiksins og temji sér þann sið að ná til allra nefndarmanna.

Á fundinum í gær var mjög mikilvægt mál á ferðinni, verið að senda (Forseti hringir.) veiðigjaldamálið til umsagnar og ég hafði ekki tækifæri til að koma að því.