142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í þessari umræðu hefur komið fram gagnrýni á það frumvarp sem liggur frammi um veiðileyfagjald sem við ræðum hér á eftir. Komið hefur fram að ástæða þess að frumvarpið er lagt fram sé sú að þau lög sem í gildi eru, og koma áttu til framkvæmda frá og með nýju fiskveiðiári 1. september 2013, hafi verið þannig úr garði gerð af hálfu okkar þingmanna að ekki sé hægt að vinna eftir þeim; og það er áminning til okkar. En til að hægt verði að leggja veiðigjald á útgerðina, sem ég held að flestir í þessum sal ef ekki allir séu sammála um að eigi að gera, þá er þetta frumvarp lagt fram. Nú fer minni hlutinn hamförum í því hvernig það er gert og að gera eigi það öðruvísi.

Undirskriftalistar eru líka í gangi en ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á því í hverju þeir eru fólgnir vegna þess að þau lög sem áttu að taka gildi geta ekki tekið gildi þar sem þau eru vanbúin af hálfu okkar þingmanna.

Ég vil spyrja hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur: Var henni kunnugt um, sem fulltrúa í atvinnuveganefnd, að veiðileyfagjaldanefndin hafði í tvígang á síðasta þingi, bæði í desember og síðan í mars, gert ríkisstjórninni viðvart um að ekki væri hægt að innheimta veiðileyfagjaldið samkvæmt þessum lögum.

Hv. þingmaður sat í atvinnuveganefnd og því spyr ég hana: Var henni kunnugt um að ríkisstjórninni hefði verið gert viðvart? Var meiri hluta í atvinnuveganefnd gert viðvart um að ekki væri hægt að leggja veiðigjald á samkvæmt þessum lögum? Ég tel mikilvægt að það komi fram hvort þingmönnum, stjórnarmeirihluta síðustu ríkisstjórnar, hafi verið kunnugt um þetta verklag veiðigjaldsnefndar.