142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

stjórn fiskveiða o.fl.

4. mál
[14:58]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Sem betur fer hafa ekki orðið alvarleg slys í strandveiðum en auðvitað gerir hættan ekki alltaf boð á undan sér og menn þurfa að fara gætilega. Því miður hafa orðið alvarleg slys í útgerð og þá er ekki alltaf um litlar útgerðir að ræða heldur af öllum stærðum og oftar en ekki er þar um að ræða mannleg mistök. En sjómenn við Íslandsstrendur þurfa nú eins og áður að fylgjast með veðri og gera út í samræmi við það, láta ekki kappið eitt saman ráða ferðinni.

Hv. þingmaður kemur inn á að fjármunum Byggðastofnunar sé ekki vel varið og verið sé að gefa skattfé þjóðarinnar. Ég get ekki tekið undir það. Við erum samfélag og það er líka dýrt þegar samfélög af einhverjum orsökum eiga undir högg að sækja. Skaðinn fyrir okkur sem þjóð getur orðið meiri þegar upp er staðið ef menn grípa ekki inn í.

Það þurfti aldeilis að grípa hér inn í þegar hrunið varð vegna ákveðinna aðila í þjóðfélaginu. Þá sat samfélagið uppi með það og nú ætlar hæstv. ríkisstjórn að gefa skattfé með því að lækka veiðigjöld af vel greiðandi fyrirtækjum. Ef eitthvað er er þar verið að tala um að gefa skattfé sem annars hefði nýst vel til samfélagsins og uppbyggingar þess. Svo það er ekki sama hvor er, Jón eða séra Jón.