142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[15:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér eru að berast nokkuð merkileg tíðindi utan úr samfélaginu þess efnis að Agnar Kristján Þorsteinsson, sem hefur staðið fyrir undirskriftasöfnun gegn breytingum veiðigjaldsins, hefur fengið fundarboð frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og að afrit af fundarboðinu hafi verið sent á yfirmann Agnars. Helga Vala Helgadóttir lögmaður fór með manninum á fund ráðherrans í dag og lítur þetta mjög alvarlegum augum þar sem hér er um það að ræða að vegið er með alvarlegum hætti að tjáningarfrelsi mannsins.

Virðulegur forseti. Ég bið forseta að ganga í það að óska eftir sérstökum fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem ráðherra verður kallaður fyrir til þess að gera grein fyrir tilurð og aðdraganda þessa máls.