142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[15:43]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið og óska nýjum varaþingmanni Vinstri grænna til hamingju með jómfrúrræðuna, hún var mjög góð og tók verulega vel á þessu máli. Hún lýsir kannski hvernig við hugsum þetta og höfum talað um málið í minni hlutanum í allsherjar- og menntamálanefnd.

Ég hef talað um þetta mál áður og sagt minn hug í því, þá var hæstv. menntamálaráðherra reyndar ekki hérna á staðnum. Fyrir mig sem nýjan þingmann sem kom inn á þing fullur af kjarki og bjartsýni og þori, sérstaklega vegna þess að hæstv. ríkisstjórn boðaði nýja tíma og sól í heiði og að hér mundi allt verða breytt — þannig var umræðan í þjóðfélaginu, að hér yrði allt breytt. Loksins væri komið alvörufólk við stjórnvölinn. En ég verð að segja að ég er afskaplega dapur yfir þessu máli.

Ég tíundaði um daginn hvað mér finnst um Ríkisútvarpið, ríkisfjölmiðil okkar. Hann er ein stærsta menningarstofnun okkar. — Þá fór hann, ég er svona leiðinlegur — Þetta er stærsta menningarstofnun og öryggisstofnun landsins að mínu mati. Ég get svo sem vel skilið að menn komi fram með frumvarp í þessum málum ef ekki væri fyrir þá staðreynd að í vor var samþykkt nýtt frumvarp um Ríkisútvarpið sem engin andstaða var við. Framsóknarmenn samþykktu það og hæstv. menntamálaráðherra sat hjá.

Ég kom hér inn á þing bjartsýnn á að nýir tímar væru í nánd en það er nú aldeilis ekki. Það er verið að hverfa til gamalla tíma í þessu máli. Fyrrverandi menntamálaráðherra fór mjög vel í gegnum það hver hugsunin var á bak við það að taka málefni Ríkisútvarpsins í gegn aftur, skipa valnefnd og reyna að gera þetta faglega. Mér fannst það svo falleg hugsun, ég verð að segja það, um þennan merka miðil sem hv. þm. Pétur Blöndal vill selja. Það er líka allt í lagi, hver má hafa sína skoðun á því, en ég mundi aldrei samþykkja það, því að Ríkisútvarpið er það mikið öryggistæki fyrir þjóðina. (PHB: Það var slökkt á því einu sinni.) Já, ég veit það.

Ég vil segja minn hug og það sem hræðir mig líka í þessu máli eru ummæli tveggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Þau fá mann til að hugsa: Hvað liggur á bak við þessa breytingu á skipun stjórnarinnar, þegar þeir segja að hreinsa þurfi út úr þessari stofnun samfylkingar- og vinstrigrænaliðið og það þurfi alvörufólk í stjórn RÚV? Þeir hafa aldrei komið upp og skýrt það fyrir mér hvað er alvörufólk.

Ég tók eftir því í kosningabaráttunni að við í Bjartri framtíð vorum t.d. kölluð geimverur, og svo hefur maður tekið eftir því að vissir liðsmenn ákveðins stjórnmálaflokks kalla annað fólk hyski sem ekki er talandi við og þar fram eftir götunum. Ég upplifði það í kosningabaráttunni að fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins kallaði ríkisstjórnina aumingja, hér mundi ekkert gerast á Íslandi af því að hér væru bara aumingjar við völd, og hann sagði það ekki einu sinni heldur tvisvar við mann sem var að spyrja hann frétta úr þinginu. Þessi sami þingmaður sagði: Maður vitnar ekki í vinstra liðið.

Mér finnst þessi aðgerð öll miða einmitt að þessu: Burt með allt þetta helvítis vinstra lið — afsakið orðbragðið. Ég biðst innilega afsökunar.

Það er þessi hugsun sem mér finnst vera svo ríkjandi og maður vonaði að væri að hverfa úr stjórnmálunum. En því miður er það ekki þannig. Á fyrstu metrum nýs þings hefur maður orðið fyrir gífurlegum vonbrigðum með það sem er að gerast hérna. Maður var tilbúinn að styðja hæstv. ríkisstjórn til allra góðra verka sem hún var að leggja af stað með, en mér finnst hún byrja algjörlega á snarvitlausum enda. Það heyrir maður úti í þjóðfélaginu því miður. Það er ekki mikil bjartsýni ríkjandi í þjóðfélaginu núna. Það er slæmt.

Ég sagði um daginn að ég vonaðist til að hæstv. menntamálaráðherra mundi draga frumvarpið til baka og gefa nýju lögunum, sem tóku gildi í vor, séns, leyfa þeim að sanna gildi sitt. Ef þau duga ekki þá er allt í lagi að koma fram með frumvarp sem við getum rætt um málefnalega. Og af því að ég segi málefnalega þá hefur ekki einn einasti framsóknarmaður opnað munninn í þessu máli, ekki einn. (ÖS: Þeir skammast sín.) Ég hugsa að það sé eitthvað svoleiðis. (Gripið fram í.) Ég veit ekki hvort þetta er málefnalegt.

Mér finnst svolítið skrýtið, hv. þm. Pétur Blöndal, að enginn í Framsóknarflokknum skuli tjá sig um þetta mál, af því að þetta er eins og hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason sagði áðan — Vilhjálmur Árnason. Fyrirgefðu, Villi minn, ég biðst afsökunar. Ég er nýr, ég vona að hæstv. menntamálaráðherra fyrirgefi mér að ég geri mistök, ég á örugglega eftir að gera þau fleiri.

Hv. þm. Vilhjálmur Árnason sagði áðan að þetta væri stórt mál. Þetta er svolítið stórt mál af því að við erum að tala um Ríkisútvarpið, fjölmiðil okkar allra, sem á að vera, eins og hv. þingmaður kom inn á áðan, fjórða valdið. Hann á að veita okkur aðhald.

Ég velti því oft fyrir mér: Hvernig eigum við að velja starfsmenn inn í Ríkisútvarpið? Fólk hefur misjafnar skoðanir og við verðum að treysta á hlutleysi þess.

Ég vona svo sannarlega að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra dragi málið til baka. Gefum nýja frumvarpinu sem var samþykkt í vor séns. Ég er tilbúinn til ásamt örugglega mörgum öðrum að taka þetta til baka ef það gengur ekki. Við viljum lýðræðisleg og góð vinnubrögð. En ég vil endurtaka að ég er mjög dapur yfir því hvernig þetta hefur farið hér af stað.