142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[15:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Páll Valur Björnsson er eins og margir Suðurnesjamenn annálað þrekmenni og það gustaði af honum í ræðustól áðan. Hann lýsti því hvernig hann kom til þings fullur af þori, bjartsýni og kjarki en hefði andspænis verkum ríkisstjórnarinnar eftir einungis einn mánuð glúpnað svo að hann væri dapur orðinn nú þegar. Hvernig heldur hann að okkur hinum ræflunum líði þá? [Hlátur í þingsal.] Ekki erum við þó jafn vel að okkur til anda og líkama eins og hv. þingmaður.

Hv. þingmaður var með eina spurningu sem hann spurði svo sem einungis út í tómið. Hann ætlaðist kannski ekki til að fá svar, en ég get fyrir hönd þeirra sem hér eru svarað því. Hv. þingmaður spurði: Hvað er það sem þarf til að menn eins og hæstv. menntamálaráðherra líti á menn eða konur sem alvörufólk? Það er mjög auðvelt að svara þeirri spurningu. Menn þurfa að hafa flokksskírteini í Sjálfstæðisflokknum.

Frumvarp hæstv. menntamálaráðherra gengur ekki út á neitt annað en það að Sjálfstæðisflokkurinn er að læsa klóm sínum um Ríkisútvarpið. En það má virða það hæstv. menntamálaráðherra til vorkunnar að þar fetar hann slóð sinna fyrri mæðra og feðra í Sjálfstæðisflokknum. Það hefur alltaf verið nr. eitt, tvö og þrjú hjá Sjálfstæðisflokknum þegar hann hefur verið í ríkisstjórn, og muni ég rétt hefur hann verið 51 af 69 lýðveldisárum í ríkisstjórn, að ná tökum á Ríkisútvarpinu. Menn gátu lesið það í pistli Styrmis Gunnarssonar fyrr á árinu. Þessi vaski, fallegi ungi hæstv. menntamálaráðherra er ekki að gera neitt annað en að fylgja þeirri forskrift sem er lögð af hálfu flokksins. Þetta er svarið: (Forseti hringir.) Menn þurfa að hafa flokksskírteini í Sjálfstæðisflokknum til að vera alvörufólk.